11.1.2015 | 18:16
Hversdagsleiki
Kæru bloggvinir
þessa vikuna höfum við verið að reyna að fá hversdagsleikann aftur í gang. Ágúst hefur verið annað hvort heima eða í pössun. Hann hefur verið ansi ringlaður á þessu. Dagmamman reiknar með að geta byrjað aftur að vinna á fimmtudaginn. Við vonum að það passi. Hann er farin að hafa þörf fyrir að komast inn í rútínu aftur. Auði finnst heldur ekkert sniðugt að fara í leikskólann þegar hún veit hann er ekki að fara til dagmömmunnar. Hún er eitthvað voða leið á að fara í leikskólann þessa dagana og er óskaplega þreytt. Hún spurði á hverjum morgni í síðustu viku, hvenær kæmi helgi og hún gæti sofið út. Á laugardaginn vaknaði hún svo kl. 5:30 og gat ekkert sofið meira. Hún verður örugglega ekkert sérstaklega spræk á morgun.
Við ætlum að reyna að fá hana til að byrja í sundi, á sama stað þar sem við höfum verið í ungbarnasundi. Við fórum þangað á þriðjudaginn. Það var svona prufutími. Það gekk alveg ágætlega. Það er erfitt að reikna út, hvernig það gengur í næstu viku. Hún er óútreiknanleg þegar kemur að því að prófa eitthvað nýtt.
Við erum byrjuð á fullu í mataraðhaldi aftur og byrjuð að hreyfa okkur aftur. Frúin var reyndar nokkuð dugleg að fara út að labba í jólafríinu. Það er auðvitað alltaf erfitt að komast í gang aftur, en maður finnur vel fyrir því að vera búin að borða brauð og sykur í hálfan mánuð.
Bóndinn er búinn að taka niður allt jólaskrautið úti. Það er heljarinnar vinna, en fínt að klára það. Það hafa verið óveður síðan á föstudaginn. Það er eitthvað að róast núna. Það hefur verið mikið rok og rigning. Það voru hús sem stóðu hérna úti á vesturströndinni sem ultu í sjóinn. Það var svo mikill sjógangur að sjórinn braut niður jarðveginn undir húsunum. Það hlýtur að vera dálítið undarlegt að sjá húsið sitt velta í sjóinn. Það fauk ekkert hjá okkur, enda bóndinn búinn að setja dótið inn.
Kötturinn sem við tókum að okkur er ennþá hjá okkur, en fær ekki að koma inn, af því hann kann ekkert á kattabakkann. Við ætlum að reyna að koma honum út á sveitabæ hérna rétt hjá. Sennilega hefur hann verið fjósaköttur fyrir.Annars getur hann nú svo sem verið hérna á bak við.
Við Ágúst fórum svo í ungbarnasund í gær. Honum fannst það mikið fjör og fór margar ferðir í rennibrautina. Það er mjög fyndið að fylgjast með hvernig margir hlutir eru auðveldari fyrir hann af því hann á eldra systkini. Hann lærir mikið af systur sinni, bæði gott og slæmt.
Bilanaveikin er ennþá að angra okkur. Á mánudaginn byrjaði öll ljós í mælaborðinu á bílnum að blikka og hann vildi ekki keyra lengra. Það lagaðist svo eftir smá stund. Það er sennilega alternatorinn sem er að gefa sig. En við ætlum að sjá hversu lengi við getum keyrt hann án þess að setja hann í viðgerð. Það er alltaf mjög dýrt að setja bílinn á verkstæði. Svo í gær var eins og pillubrenniofninn hjá okkur væri að bila. Bóndinn las sér eitthvað til um málið og hreinsaði einhverja skynjara, og það hefur virkað síðan. Við vitum ekki hvort það hafi verið nóg, eða það þurfi meira til. Vonandi hefur þetta verið nóg.
Jæja ætli sé ekki best að fara að koma börnunum í bólið.
Kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.