25.1.2015 | 18:52
Snjórinn kominn
Kæru bloggvinir
þá varð loksins af því við fengjum snjóinn sem þeir hafa verið að lofa. Það kastaði smá éli í gær og veðrið hefur verið mjög fallegt. Þetta er nú bara eitthvað smotterí og það á víst að byrja að rigna í vikunni, svo vetur konungur gerir víst bara stutt stopp í þetta skiptið. Auður greyið fékk hlaupabólu á föstudaginn og hefur ekkert getað farið út, en frúin fór út með Ágúst og Nonna og við bjuggum til tvo litla snjókarla, sem Nonni svo eyðilagði. En þeim fannst þetta víst báðum mjög skemmtilegt. Í dag var svo farið í leiðangur að versla öskudagsbúninga. Við höfum nú alltaf fengið þetta lánað, en nú er ungfrúin farin að hafa ákveðnar skoðanir á þessu, svo það varð að kaupa galla á þau bæði.
Ungfrúin hefur verið voða aum og er illt í bólunum. Hún hefur nú verið hressari í dag. Hún verður allavega heima á morgun og ætli hún fari svo ekki í leikskólann á þriðjudaginn. Ágúst er ekki enn kominn með þetta, en það kemur kannski seinna. Eða kannski sleppur hann. Aldrei að vita. Hann hefur verið að uppgötva spottann á milli fótanna á sér. Það er mjög spennandi og hann reynir að toga í þetta. Hann sér hann nú ekki af því hann er með bumbu. En ferlega fyndið að fylgjast með þessu.
Við fórum svo í smá heimsókn hjá fólki hérna rétt hjá, sem eru með kúabú. Við létum þau hafa köttinn sem við tókum að okkur. Svo er bara að sjá hvort hann verður þar, eða hvort hann stingur af. Það ætti allavega að vera nóg að éta. Það hljóta að vera einhverjar mýs í fjósinu. Þetta eru nú engin smá fjós sem þeir eru með. Þetta er ekkert mjög stórt bú, en þau eru með 200 kýr og svo kálfa og svoleiðis. Þau eiga ekki minna en 5 stráka og svo fengu þau stelpu, sem er jafngömul og Auður. Þær fara í sama skóla í haust.
Frúin fór nú að hugsa um daginn að það liði ekki á löngu áður en stóra stelpan á heimilinu fari í skóla og litli prinsinn í leikskóla. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Auður getur byrjað í einskonar aðlögun að skólanum núna í apríl. Þá er hún bara svona að kynnast skólanum og börnunum. Svo byrjar skólinn fyrir alvöru í haust. Maður þarf auðvitað að fara í sér verslunarferð til að versla skólatösku og allt sem tilheyrir. Það verður nú eitthvað spennandi.
Annars er nú allt við það sama hérna í kotinu. Það er eitthvað aðeins farið að birta, en það gengur nú hægt. En allavega gott að veðrið er ekki að stríða of mikið, þegar maður þarf að keyra svona langt í vinnuna á hverjum degi. Danirnir eru nú alltaf eitthvað að væla yfir að það sé ekki neinn snjór. Ef hann svo kæmi, þá yrði það allt ómögulegt.
Jæja ætli sé ekki best að fara að slaka á fyrir næstu vinnuviku.
Kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.