Hlaupabóla taka tvö

Kæru bloggvinir

þá er hlaupabólan mætt aftur í hús. Þegar frúin var að skipta á syninum í morgun sá hún nokkrar bólur á honum, svo hann fer víst ekki til dagmömmunnar þessa vikuna. En það er búið að bjarga því. Það er sem betur fer skólafrí í næstu viku, svo það er auðveldara að fá pössun. Við vonum svo bara að hann fái ekki meira en systir sín. Hún fékk ekkert svo mikið. Ekki miðað við marga aðra sem við höfum séð.

Það er mjög fallegt veður hér í dag. En það er nú lítið hægt að nýta sér það, þegar maður er með barn með hlaupabólu. Við verðum bara að vera inni í dag. Það verður bara að horfa á DVD myndir og leika. Ágúst er nú nokkuð góður í því. Þau eru bæði orðin alveg þrælkvefuð aftur. Það er búið að vera heitt og kalt til skiptis undanfarið, svo það  er sennilega ekki mjög gott fyrir lungun. Þeir eru að lofa kulda aftur í næstu viku. Frúin þarf að vinna mánudag og þriðjudag, og kannski miðvikudag. Þannig að þetta verður auðveld vika. Það er ekki búið að plana neitt sérstakt í tilefni þess að það er frí. En það verður að reyna að gera eitthvað, fyrst það er frí. Það verður að planleggja það þegar maður sér hversu veikur Ágúst verður.

Annars er allt við það sama hér. Það er farið að birta töluvert bæði á morgnana og seinnipartinn. Það er stór hjálp í því.

Þau systkin eru með algjört æði fyrir að kubba. Það er verst að það eru ekki til svo margir, svo þau eru nú stundum að rífast. stundum geta þau kubbað saman, en það fer eftir því hvort Ágúst gerir eins og systir hans segir. Hún er ansi stjórnsöm. Hún byrjar í svona skólaundirbúning um miðjan apríl. Hún hættir þá í leikskólanum. Það verður nú pínu skrýtið. Hún er orðin voða spennt að byrja. Hún veit nú sennilega ekki alveg út á hvað það gengur, og að þær stelpur sem hún hefur leikið mest við síðustu ár, fara í annan skóla, svo hún þarf að finna nýja leikfélaga. En ætli hún finni nú ekki eitthvað út úr þessu með tímanum.

Við fórum í sund í gær. Auður skellti sér í köldu laugina og synti nokkrar ferðir, með kút og kork. Við urðum samt að fara upp úr, af því Ágústi fannst laugin svo köld. Frúnni fannst hún nú ekkert sérstaklega heit, en það venst svo sem. Frúin fer venjulega með Auði í sund á þriðjudögum. Hún er að vera meira frökk. Hún þarf að venjast þessu og svo erum við að vona hún vilji synda í stóru sundalauginni með tímanum. Hitastigið í sundlaugunum hérna er nú ekki það ssma og heima á Íslandi. En Dönunum finnst þetta líka hálfkalt, þó þeir séu vanir þessu.

Nýjasta áhugamálið hjá Auði er að horfa á mynd um sirkus. Hún vill gjarnan vera sirkusprinsessa þegar hún verður stór. Hún er alltaf að spyrja hvenær við förum aftur í sirkus. Hún er enn að syngja jólalögin, þó við séum nú alltaf að reyna að telja henni trú um að jólin séu búin. Bróðir hennar apar allt upp eftir henni. Hún hefur róast mikið undanfarið og þroskast.

Jæja ætli sé ekki málið að fara að slaka á, fyrir næstu törn. Það þarf að gera pizzu fyrir kvöldið. Það átti að gera þær í gær, En þá vorum við svo heppin að vera boðið í mat hjá vinafólki okkar.

Kveðja frá Tiset og hlaupabólunni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband