Vetrarfrí

Kæru bloggvinir

Þá er vetrarfríið á enda. Frúin ætlaði nú að vinna mánudag til miðvikudag, en drengurinn var svo lasinn að hún var heima með hann og Auði líka. Hún átti að vera í leikskólanum, en það var ekki hægt að senda hana af stað þegar Ágúst var heima. Hann var mun meira veikur en Auður. Hann svaf ekkert eina nóttina og fékk bólur út um allan maga og bakið líka. Hann var voða lítill í sér í nokkra daga. Hann gat voða lítið borðað því hann var líka með bólur í munninum. En hann er búinn að vera hress síðustu daga, svo hann fer aftur til dagmömmunar á morgun. Þau verða eflaust fegin að komast í rútínu aftur. Annars eru þau búin að vera voða róleg, miðað við að við höfum ekki getað farið út eða gert neitt sérstakt. Það er skítakuldi hérna núna. Ekki frost, en af því það er svo mikill raki og rok, þá virkar þetta mikið kaldara.

Við fórum í heimsókn til vina okkar í Odense í gær. Auður og Arndís voru voða duglegar að leika sér í herberginu hennar Arndísar. Eða það héldum við. Þangað til þær komu út úr herberginu allar útkrassaðar í túss. Það vakti ekki mikla hrifningu hjá foreldrunum, en þeim þótti þetta nú mjög smekklegt. Það verður að setja barnið í bað í kvöld og sjá hvort maður nái þessu ekki af. Það er búið að nudda það versta úr andlitinu.

Frúin fór á föstudaginn og hjálpaði fyrrverandi nágrannakonu sinni að þrífa. Þau voru að flytja og hún var bara ein að þrífa og flytja. Og þetta er ekkert venjulegt fólk. Þau eru svo rosalegir sóðar, að annað eins hefur varla sést. Við þurftum að fara í önnur föt þegar við komum heim, þau voru svo skítug. En gott að geta hjálpað, þau hafa alltaf verið mjög góð að hjálpa okkur. Þau voru að flytja í húsið við hliðina, svo þetta var bara borið yfir veginn. Þægilegt. Við keyptum af þeim koju og settum inn í herbergið hjá krökkunum. Þá var hægt að setja bæði rúmið hennar Auðar og Ágústs upp á loft. Það er orðið hellings pláss í herberginu þeirra núna. Auður er búin að vera inni í herbergi að leika síðan við breyttum þessu. Hún hefur aldrei viljað leika þar inni. Það er spurning hversu lengi það verður. En er á meðan er.

Það eru öskudagshátíðar hér flesta daga. Þeim finnst það nú ekki leiðilegt. Það er öskudagshátið í sunnudagaskólanum á morgun. Svo er örugglega líka eitthvað hjá dagmömmunni líka í næstu viku og á sunnudaginn er svo öskudagshátíð í Tiset. Nóg að gera í þeim málum. Jæja ætli sé ekki ráð að fara að njóta síðasta dagsins í fríinu. Vonandi er þessu veikindastandi hjá börnunum lokið. Þau hafa nú aldrei verið mikið veik, svo þetta eru töluverð viðbrigði.

Kveðja úr kuldanum

Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband