22.2.2015 | 15:55
Öskudagur
Kæru bloggvinir
þá er búið að slá köttinn úr tunnunni. Ágúst var klæddur út sem ljón og Auður sem prinsessa. Ágúst var valinn einn af þremur best klæddu og fékk 50 kr danskar í verðlaun. Hann skildi nú víst ekki alveg allt umstangið, en fannst athyglin ekkert leiðileg. Þau fengu fullt af sælgæti, svo þau verða hress í kvöld. Það eru víst ekki fleiri öskudagsskemmtanir á þessu ári, enda komið alveg nóg í bili. Bóndinn bakaði vatnsdeigsbollur í gær og þær voru borðaðar með bestu lyst. Óli og Guðný komu í heimsókn í gær, svo Auður fékk bæði Arndísi að leika við og svo var vinkona hennar hérna á móti, líka hérna í mest allan gærdag. Þær voru nú nokkuð stilltar, svona miðað við hvernig þær geta verið. Það var ruslað vel til, en þær eru nú nokkuð góðar að taka til. Auði finnst oft gaman að taka til. Gaman að vita hvernig það eldist af henni.
Annars er allt að verða komið í fastar skorður aftur, eftir vetrarfrí. Börnin hafa verið hraust þessa vikuna, gott að það hefur ekki verið neitt veikindavesen. Það er víst búið að vera mjög mikið um veikindi almennt hjá börnum. Enda búið að vera mikill loftraki. Það er skítakuldi með þessu. En sem betur fer ekki mjög mikið rok.
Við fórum í vinakvöldmat á föstudaginn. Það var fólk frá Sýrlandi sem eldaði matinn. Það var eitthvað sem líktist þangi, með kjúklingi í. kartöflur sem voru fylltar með kjöti og salat. Það tekur nú sennilega tíma sinn að taka innan úr kartöflum og setja fyllingu í. Þetta var mjög huggulegt eins og venjulega.
Auður er farin að fara í sund á þriðjudögum. Hún er eitthvað að sættast við að vera ekki með okkur á laugardögum, eins og hún er vön. Hún fer ein ofan í laugina, og það hefur eitthvað verið að standa í henni. Ágúst fer með móður sinni á laugardögum og finnst það mjög gaman. Þau eru nú bæði hrifnust af því að vera í heitu lauginni, en kannski geta þau vanist venjulegu lauginni. Hin börnin virðast allavega geta það.
Annars hefur vikan liðið ofurhratt eins og allar aðrar og maður skilur ekkert í því að það sé að koma mars. Bráðum ætti að fara að vora hérna hjá okkur. Það verður nú ekki leiðilegt. Við værum allavega alveg til í að sleppa við veturinn. Það hefur ekki verið harður vetur enn sem komið er og vonandi verður þetta bara áfram svona.
Jæja það hefur víst ekki mikið annað gerst hér í þessari viku.
Kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.