1.3.2015 | 12:13
Vor í lofti
Kæru bloggvinir
það er búið aðð vera vor í lofti hér í dag og í gær. En það er nú ennþá ansi kalt, svo þetta er meira svona gluggaveður. En það munar miklu þegar sólin skín. Það hefur verið hálf grámyglulegt veður hér í mestallan vetur. En frúin hefur svo sem verið fegin að það hafi ekki verið snjór. Það er svo mikið vesen þegar það snjóar. Þá fer allt í vitleysu. Það getur nú náð að koma eitthvað hret ennþá, en líkurnar verða minni og minni. Það er farið að birta heilmikið á morgnana og á kvöldin. Það er heljarinnar mál að fá Auði til að vera í fötum. Hún vill helst vera á nærbuxum einum fata alla daga. En það gengur nú ekki. Það er barist hér á hverjum morgni um hversu mikið hún á að klæða sig. Það verður óskaplega gott þegar hún getur farið að vera á tásunum og eitthvað léttklæddari.
Hún var að leika með vinkonu sinni í mestallan gærdag. Það var heima hjá vinkonunni. Þegar frúin kom að sækja hana fóru þær báðar að hágráta. Það varð því að semja um að þær mættu fara saman á enn eina öskudagsskemmtunina í dag. Svo ætti þetta nú að vera búið í ár. Það verður eitthvað harmakvein þegar Auður hættir í leikskólanum eftir þennan mánuð. Hún á að byrja í aðlögun fyrir skólann. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Maður skilur þetta varla. Og litli ormurinn fer í leikskóla í haust. Það þarf bráðum að fara að huga að fermingu, með þessu áframhaldi.
Svo er mikil tilhlökkun hér á heimilinu þar sem fjölskyldan er væntanleg á klakann um páskana. Auður telur dagana niður. Hún saknar systur sinnar óskaplega mikið. Ágúst skilur nú ekki svo mikið af þessu ennþá. En honum á nú örugglega eftir að finnast þetta mjög spennandi. Okkur vantar stað að vera, svo ef einhver veit um hús sem þarf að passa um páskana, þá erum við mjög áreiðanlegir húsapassarar. Þegar við komum til baka til DK, þá byrjar Auður í aðlögun í skólanum. Hún er rosalega spennt fyrir þessu. Hún á nú örugglega líka eftir að sakna krakkana í leikskólanum. En hún kynnist auðvitað líka nýjum börnum. Það byrja 8 börn í aðlögun á sama tíma og hún og þau verða 11 í allt. Við erum mjög ánægð með að þetta er svona lítill hópur.
Ágúst er alveg milljón þessa dagana. Hann svarar oft alveg rosalega spaugilega fyrir sig. Og nýtur auðvitað athyglinnar í botn. Hann veit alveg hvernig hann á að fá athygli. Pabbi hans spurði hann um daginn hvort hann væri með njálg. Hann horfði hneykslaður á hann og svaraði, nei. Svipbrigðin hjá honum eru óborganleg. Það er oft erfitt að halda andlitinu.
Annars er allt með frið og spekt hérna. Frúin var að uppgötva að passinn hennar og Auðar er útrunninn fyrir ári síðan. Það verður því að reyna að ná í eitthvað til að redda því. Maður pælir ekki mikið í þessu dags daglega. En maður þarf að vera með passa þegar maður fer til Þýskalands, svo það var gott það var ekki búið að stoppa okkur.
Jæja best að fara að koma sér á öskudagsskemmtun.
Kveðja frá Tiset
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.