8.3.2015 | 13:10
Gluggaveður
Kæru bloggvinir
Það er vor í lofti í dag. Sól og ágætlega heitt, meðan maður er í sólinni. Þetta er því hálfgert gluggaveður. En gerir samt heilmiið fyrir geðheilsuna. Það var gott veður síðustu helgi, en svo skipti aftur í gráveður þangað til í dag. Við fórum í göngutúr inn í Gram í dag og gáfum öndunum. Þær eru nú sennilega ekki vanar að vera fóðraðar, því þær voru eitthvað styggar. En börnunum og Ágústi fannst þetta mjög spennandi.
Auður og vinkona hennar eru búnar að vera saman mestalla helgina. Það hefur gengið upp og niður, en aðallega vel. Þær eru oftast góðar saman. Auður fékk að taka hana með sér heim á föstudaginn, það var allt ómögulegt. Auður vildi ekki leyfa henni að gera neitt, hún var ekkert nema mótþróinn, sennilega bara þreytt eftir langa viku. Síðan voru þær saman mest allan daginn í gær, án þess að gera annað af sér en að rusla heilmikið til. Þær voru nú settar í að taka til eftir sig, þrátt fyrir heilmikil andmæli. Vinkona Auðar er ekki vön að gegna, svo hún spyr í hvert skipti sem hún er beðin um eitthvað, af hverju. Auður á örugglega eftir að sakna hennar þegar hún kemur til Íslands um helgina. Hún er annars mikið að spá og spekulera þessa dagana. Það voru sviðnir og hreinsaðir 12 lambahausar hér í gær, og bakgarðurinn hjá okkur líktist sláturhúsi. Hún sá þetta allt saman en sagði nú ekki mikið. Hún sagði svo seinna í gær að hún vorkenndi lömbunum mikið að fá þessa meðferð. Svo útskýrðum við fyrir henni að við borðuðum dýrin, og töldum upp kýr og kindur og líka hesta. Þá var henni nú alveg lokið. Maður gæti nú ekki borðað svo sæt dýr.
Ágúst er voða mikið að fullorðnast í útliti núna. Hann er að lengjast og grennast. Það kostar auðvitað að það þarf að versla ný föt fyrir barnið. En svona er það. Hann hefur nú þegar skoðun á því hvaða fötum hann vill vera í. Ég setti hann í einhverja peysu í gær, sem honum þótti greinilega ekki við hæfi, því hann sótti sér aðra. Hann er mjög duglegur að reyna að klæða sig, gefst nú oft upp, en reynir allavega. Hann er að verða of langur til að sofa í barnavagninum en það er hálfgerð synd að láta hann hætta að sofa í honum, hann sefur svo vel. Við verðum að sjá hvað hægt er að finna. Hann hættir allavega að sofa í vagni þegar hann fer í leikskólann. Hann blaðrar mjög mikið, mest á dönsku, en kemur með íslensk orð á milli. Hann apar allt upp eftir systir sinni.
Jæja best að njóta friðarins. Ágúst er sofandi úti í vagni og Auður er hjá vinkonu sinni.
Kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.