Vor í lofti

Kæru bloggvinir

það er nú varla maður þori að skrifa um veðrið í þessari færslu. Miðað við fréttirnar að heiman, þá erum við víst bara mjög heppin. Það er nú vonandi að þessu fari eitthvað að linna hjá ykkur. Þetta hlýtur að fara að verða gott. Við getum reynt að koma með eitthvað smá betra veður með okkur þegar við komum um páskana. En við viljum nú gjarnan taka það með okkur til baka aftur. Frúin fór út með Ágúst og hundinn í morgun. Ágúst er að líkjast systir sinni meira og meira, allavega að því leyti að hann er mikill gaufari. Hann fékk plastpoka á göngunni og byrjaði að tína alls konar blöð og sand í pokann. Hún gerir þetta ennþá. En auðvitað bara gott að þau geta dundað sér við svona lagað og finnst þetta spennandi. Nonna finnst líka blöðin sem fjúka um í garðinum, gríðarlega spennandi.

Ágúst er mjög duglegur að blaðra. Hann er duglegur að syngja og er farin að geta talið og kann einhverja liti. Hann lærir mikið af systur sinni. Þess vegna er hann sennilega eitthvað fljótari að læra hlutina.

Við drifum í að finna lausn á öllum yfirhöfnunum sem fljóta út um allt hérna fram á gangi. Það er mikill munur að þurfa ekki að vaða í gegnum haug af dóti þegar maður ætlar þarna fram. Við gætum alveg notað meira pláss þarna frammi, en það er nú ekki svo einfalt.

Annars gengur allt sinn vanagang hér á bæ. Börnin eru óskaplega þreytt á að vakna morgnana, nema um helgar. Þá vaknar sonur okkar í síðasta lagi kl. 5 og finnst hann alveg ofurhress. Foreldrarnir eru ekki alveg sammála. Auður er nú farin að geta sofið eitthvað lengur, en vaknar oft við bróðir sinn og sofnar ekki aftur. Bóndinn var því sendur framúr í morgun.

Frúin uppgötvaði sér til mikillar hrellingar að passinn hennar og Auðar runnu út í fyrra. Það þurfti því að finna leið til að endurnýja þá, svo við kæmumst til Íslands. Það tókst eftir töluvert vesen að ná sambandi við ræðismann hér í nágrenninu og við förum til hans á þriðjudaginn. Hann er með aðsetur í Sönderborg, ca. klukkutíma keyrslu héðan. Það er alltaf verið að loka sendiráðum hér. Sennilega verið að spara, eða það er svona erfitt að vera ræðismaður fyrir Íslendinga. Þeir eru nú yfirleitt með þetta í tengingu við einhverja aðra starfsemi, svo þeir eru nú sennilega ekki mjög þjakaðir af álagi. Við náum að fá einhverja bráðabirgðaframlengingu. Það er hægt ef passinn er ekki kominn meira en eitt ár fram yfir tímann. Passi frúarinnar rann út 31 mars í fyrra, daginn sem við fljúgum til Íslands.

Auður er orðinn mjög spennt og hlakkar mikið til. Ágúst veit ekki alveg út á hvað þetta gengur, svo hann á örugglega eftir að verða spenntur þegar hann fer í lestina og flugvélina. Við ætlum svo rétt að vona að veðrið verði eitthvað skárra, svo við þurfum ekki að bíða í marga klukkutíma á flugvellinum, eins og gerðist um daginn í einhverju óveðrinu. Það er greinilega mikið fréttaefni, hvernig veðrið á Íslandi hefur verið, því það rataði í dönsku veðurfréttirnar um daginn. Það gerist nú mjög sjaldan.

Jæja best að fara að klára helgarverkin

kveðja

Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ, hæ.

Við hlökkum til að hitta ykkur um páskana og vonandi náið þið að koma með vorveðrið með ykkur. Annars er allt þokkalegat að frétta, Bragi var í augnaðgerð og sér nú allt í öðru ljósi. Hann fer í tékk á morgun og þá fáum að vita hvernig aðgerðin tókst.

Kveðja úr rokinu í Garðinum.

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 15.3.2015 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband