19.4.2015 | 17:54
Vorhugur
Kæru bloggvinir
þá er víst tími kominn á nýtt blogg. Frúin hefur ekkert verið að standa sig í þessu. Það hefur verið í nógu að snúast síðan við komum aftur hingað út. Svo þetta hefur nú bara farist fyrir. En nú er ekki um annað að ræða en að taka sig á.
Það hefur verið mjög fallegt og gott veður í dag, en annars hefur verið frekar kalt síðan við komum út aftur. En vorið er að rembast við að koma. Það á víst að vera blíða næstu vikuna, svo þetta kemur allt saman. Börnin hafa ekki fengist inn, hvorki í gær eða í dag og það er enginn smá munur. Þeim líður mikið betur þegar þau geta verið meira úti. Óli og Guðný komu í heimsókn í gær. Það var aldeilis fjör með 5 börn undir 7 ára. Við vorum að tala um að það væri þokkalega mikið að gera ef maður ætti allan skarann sjálfur. En það kæmist nú sennilega upp í vana. Börnin voru úti í allan gærdag og léku sér, án vandræða. Auður og Arndís fóru svo upp á loft og datt það snjallræði í hug að klippa dýra jólavaxdúkinn sem var þar uppi. Þeim vantaði eitthvað til að pakka inn gjöfum. Já einmitt. Frúin var ekki hrifin. Það verður þá bara að hafa hálfan dúk á borðinu næstu jól. Þeim dettur ýmislegt í hug þessum skvísum. Ekki gott að vita hvað drengjunum dettur í hug þegar þeir verða aðeins eldri.
Í dag erum við svo búin að fara í fermingarguðsþjónustu hjá Óla og Ástu vinum okkar. Við höfum ekki prófað það fyrr. Þetta var svo sem ósköp svipað og heima á Íslandi, en full mikið gert úr því að við værum hálf ráðalausir sauðir, sem ættu eftir að upplifa ýmisskonar vandræði á lífsleiðinni. Þeir leggja mikið upp úr því að við séum syndug og þurfum að biðjast fyrirgefningar synda okkar. En já, svo var mikil veisla á eftir. Veðrið var frábært, svo það var búið að slá upp tjaldi í garðinum og börnin léku sér bara úti. Ekkert smá þægilegt. Ágúst var svo haugdrullugur, að það varð að setja hann í sturtu þegar hann kom heim. Hann fór að grafa í einu blómabeðinu, með kökugaffli. En hann skemmti sér vel. Það er fyrir öllu. Hann er algjörlega ófeimin þetta barn, og fer upp í fangið á bláókunnugu fólki. Á meðan er systir hans alveg öfug og er mjög seintekin.
Hún byrjaði í skóla á mánudaginn. Fram að sumarfríi er þetta nú bara mest leikur, en eitthvað er verið að kenna þeim stafi og svoleiðis. Frúin fór með henni í strætó fyrsta daginn, og var hjá henni í smá stund, en svo tók hún sjálf strætóínn heim. Hún hefur svo farið sjálf með strætó síðan. Þetta er strætó sem sækir börnin í skólann og keyrir þau aftur heim. Hún hefur verið mjög ánægð, en auðvitað líka mjög þreytt. Það er erfitt að byrja á nýjum stað og kynnast nýjum börnum og fullorðnum. En við vonum þetta haldi áfram á sömu braut. Þá verður hún orðin alveg þrælvön í haust, þegar þetta byrjar fyrir alvöru. Bóndinn tók fínar myndir af henni. Kannski er mögulegt að fá bóndann í að henda einhverjum af þeim inn hérna.
Þau systkin voru orðin verulega þreytt á hvort öðru eftir Íslandstúrinn, svo þau voru mjög ánægð að komast í fasta ramma aftur. Ágúst á góða vinkonu hjá dagmömmunni. Hún er aðeins yngru, en þau leika víst mjög vel saman.
Maður er nú bara búinn að vera hálfþreyttur eftir Íslandstúrinn. Þetta reynir alltaf töluvert á. En það er nú alltaf gott að koma heim og hitta fjölskyldu og vini. Maður nær auðvitað ekki alltaf að hitta alla, en það er ekkert við því að gera.
Bóndinn þarf svo að fara að slá blettinn. Það er orðin töluverð spretta, svo hann þarf að fara að kíkja eitthvað á það.
Jæja best að fara að halla sér fyrir næstu átök.
Kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.