rok og rigning

Kæru bloggvinir

eitthvað er vorið að stríða okkur. Það skiptir ansi mikið skapi og maður veit aldrei hvenær maður á von á sólarglætu. Það hefur verið ansi mikið rok og svo líka rigning í dag. Það var búið að kaupa á grillið, svo bóndinn varð að standa úti í hífandi roki og rigningu og grilla. Það heppnaðist nú ágætlega þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Hann er svoddan hetja. Búinn að prófa þetta nokkrum sinnum áður. Dönunum finnst þetta örugglega óttaleg vitleysa, því þeir grilla yfirleitt bara þegar það er svo gott veður að maður geti borðað úti. Við erum ekki búin að prófa það ennþá á þessu tímabili. En við vonumst eftir mörgum góðum grilldögum á pallinum í sumar.

Við fengum auka frídag á föstudaginn. Það er ekki haldið upp á 1. maí hérna, en við fengum bænadag í staðinn. Dagurinn var nýttur í að þrífa kofann frá toppi til táar. Í gær var svo ráðist í þrifnað utandyra. Frúin hreinsaði beðið hér fyrir framan og hamaðist eitthvað við að sópa og þrífa gangstéttina. Auði var boðið að leika við Ágústu vinkonu sína í nokkra klukkutíma. Ágúst vissi ekkert hvað hann átti af sér að gera. Hann er vanur að hafa systur sína til að skipta sér af.

Í morgun var svo farið í verslunarleiðangur til Þýskalands. Þar var nóg að gera eins og vanalega. Þetta er nú ekki skemmtilegustu túrarnir, en maður lætur sig hafa ýmislegt. Börnin höguðu sér óvenjulega vel. Það er nú ekkert sérstaklega auðvelt að vera lítið barn í búðum, þar sem sælgætið er upp um alla veggi og við hliðina á manni þegar maður stendur í biðröð á kassana.

Frúin dró fram þríhjól um helgina og leyfði Ágústi að prófa. Hann var smá stund að finna út úr þessu, en þetta gengur vonum framar. Hann þarf bara að fá smá aðstoð til að fara af stað og svoleiðis. En hann verður fljótur að ná þessu. Systir hans hefur átt í verulegum vandræðum með hjólakúnstina, móðirin á heimilinu átti við slíkt vandamál að stríða líka.

Auður er voða ánægð í skólanum. Hún prófaði að fara í sunnudagaskóla í síðustu viku. Það var heima hjá kennaranum hennar. Hún var mjög ánægð með það og vildi ekki koma heim. Hún er búin að spyrja nokkrum sinnum um hvenær hún megi fara aftur. Það getur ekki hafa verið mjög slæmt. Í næstu viku fer hún sjálf með skólabílnum í sunnudagaskólann. Hún hefur tekið þessum breytingum ótrúlega vel. Hún er rosalega þreytt og stutt í pirringin. En er samt mjög ánægð með þetta allt. Hún man mjög illa hvað er sagt við hana, svona dags daglega. En svo er hún með ótrúlegt ljósmyndaminni. Hún hafði farið einu sinni heim til kennara síns. En svo keyrðum við þar framhjá í dag og þá sagði hún að þarna byggi kennarinn hennar. Ratvísina hefur hún örugglega ekki frá móður sinni.Gott að hún fær eitthvað frá pabba sínum.

Tölvan okkar er að syngja sitt síðasta. Frúin er búin að setja bóndanum fyrir að geyma myndirnar á hörðum diski, svo þær eyðist ekki, ef tölvan gefur upp öndina. Það er spurning hvað á að gera. Það verður að skoða hvaða möguleikar eru í boði. Það hefur sennilega ekki hjálpað tölvunni að frúin hellti djúsi yfir hana um daginn. Henni hrakaði allavega töluvert eftir það.

En jæja best að fara að slaka á, framundan er heil vinnuvika. Alveg spurning hvort maður hafi þetta af.

Kveðja

Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég setti allar myndirnar mínar inn á google+, þá get ég nálgast þar alltaf hvar sem er.

Hildur (IP-tala skráð) 4.5.2015 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband