Tívolí og traktor

Kæru bloggvinir

það hefur nú ekkert verið slegið slöku við hér um helgina, frekar en venjulega. Það rigndi helling í gær, svo það var reynt að þrífa eitthvað hér innan dyra. Við vorum sem betur fer búin að slá garðinn. Náðum því á föstudaginn. Það hefur verið eitthvað óstöðugt veður, svo það þarf að sæta lagi til að ná að slá. Annars sprettur ekki neitt rosalega ennþá, af því það vantar ennþá upp á hitann. Í dag hefur svo verið sól, en út af því að það hefur verið frekar mikið rok,þá er ekkert sérstaklega hlýtt, nema rétt meðan maður situr í sólinni. En við getum nú ekkert kvartað miðað við veðurfréttirnar frá Íslandi.Það er bara óvanalegt að það sé ekki komið meira vor á þessum tíma.

Við erum ekki ennþá búin að setja niður tómataplöntur. Það verður að reyna að ráðast í það um næstu helgi. Það væri nú ekki vanþörf á að taka gluggana í gegn líka. þeir hafa ekki fengið vatn og sápu síðan síðasta sumar, svo það er víst alveg komin tími á þá.

Auður hefur verið að leika við vinkonu sína alla helgina og var orðin verulega uppgefin þegar hún fór í dag. Þær hafa nú verið nokkuð stilltar. Ekki gert neitt rosalega mikið af sér. Krakkarnir eru voða duglegir að vera úti. Ágúst er voða spenntur fyrir að hjóla á þríhjóli og er nú bara orðinn nokkuð góður. Hann virðist hafa betra jafnvægi en bæði móðir hans og systir. Eins gott hann fari ekki bara að stinga af á hjólinu.

Í dag var svo farið á hestamarkað sem er haldinn á hverju vori. Það var nú frekar lítið um að vera. Oft verið meira. En aðalmálið var að krakkarnir vildu fara í tívolíið sem er þar. Það er ótrúlega dýrt og tækin eru hálfgert rusl. En þeim finnst þetta voða spennandi, svo það er fyrir öllu. Við stoppuðum nú ekkert lengi, það var frekar svalt í veðri. Við náðum líka að horfa á einhverja gamla traktora keyra um. Ágústi fannst það allavega mjög spennandi. Þau systkin eru orðin mjög upptekin af dúkkum, svo það var farið upp á loft og sótt dúkkudót. Ágúst er mjög umhyggjusamur og kann alveg taktana. Hann leikur svo samtímis með verkfærasett. Reynir að klippa tærnar af dúkkunum með klípitöng. Hann fylgdist áhugasamur með móður sinni sem fann gömul ónotuð gestahandklæði uppi á lofti og saumaði þvottastykki úr þeim. Hann sat og fylgdist með þessu af miklum áhuga.

Í kvöld var svo hent á grillið. Það klikkar ekki. Það er ekki orðið nógu heitt til að borða úti, en samt rosa gott að fá grillmat.

Jæja framundan er aldeilis löng vinnuvika. Alveg þrír dagar. Maður ætti nú að komast í gegnum það.

Kveðja

Ragga, Gummi og börnin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband