17.5.2015 | 17:46
Löng helgi
Kæru bloggvinir
þá er maður búinn að fá langa helgi. Það var nú ekki vanþörf á. Það var ansi margt sem hafði safnast upp og var ógert. Það er búið að vinna sig eitthvað niður úr bunkunum, en það leggst nú örugglega eitthvað til. Það er allavega gott þegar maður nær að afkasta svona miklu. Það er líka búið að fara í töluvert af heimsóknum. Það er nú ekki alltaf tími fyrir svoleiðis, svona dags daglega. Veðrið hefur nú ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir. Bóndinn var að smíða hábeð hér fyrir utan í dag og frúin var búin að fara margsinnis inn og bæta á sig fötum, en var samt kalt. Bóndinn þóttist mjög svalur og var á stuttbuxunum. Börnin byrjuðu líka á að vera í stuttbuxum, en Ágúst endaði nú í síðbuxum. Auður var þrjóskari og gafst ekki upp. Hún getur ekki beðið eftir að það verði nógu hlýtt til að geta sleppt einhverju af fötunum.
Í gær fórum við í heimsókn til Gunnþóru í Kolding. Við vorum ekkert búin að sjá nýjasta afkvæmið, sem er orðið 6 mánaða. Við komumst að því að við höfðum ekki hittst í 1 1/2 ár. Það er ekki nema við stórviðburði, svo sem barnsfæðingar og annað slíkt, að við hittumst. Og það fer nú að verða síðstu forvöð. Frúin er allavega fallin á tíma og Gunnþóra eitthvað farin að halla undir það síðasta. Kannski maður verði bara að reyna að hittast, þó það sé ekkert merkilegt að gerast. Auður og Maja léku sér eins og þær hefðu aldrei gert annað. Þó þær hittist nú svona sjaldan. Þær voru úti að tína snigla og hitt og þetta í dollur. Sýndu svo foreldrunum afraksturinn, mjög stoltar. Foreldrarnir voru líka gríðarlega hrifnir. Allavega meðan kvikindin voru ofan í dollunum.
Nú er svo að plana hvað á að setja í hábeðið. Það er allavega planið að setja niður jarðarber. Við höfum verið með það, en það var svo erfitt að eiga við þau, af því það safnaðist svo mikið gras í þau. Við erum búin að kaupa tómatplöntur, en ekki búin að setja þær út, af því það er enn of kalt á nóttunni. Þeir eru eitthvað að tala um að það fari að hlýna upp úr næstu helgi. Það væri nú ekkert leiðilegt.
Auður missti tönn í gær og hún var auðvitað sett undir koddann. Hún kom svo inn til okkar í morgunn, alveg miður sín, af því tannálfurinn hafði, að því hún hélt, bara tekið tönnina og skilið eftir tóman poka. Við nánari athugun kom í ljós að það voru 20 kr í pokanum. Það hjálpaði nú eitthvað upp á skapið. Þau systkin voru nú eitthvað orðin þreytt á hvort öðru hér í dag. Samt var Auður búin að vera hjá vinkonu sinni part úr degi. Þau þrófast best í föstum römmum og með leikfélaga við höndina. Annars eru þau voða góð að leika hér fyrir utan þegar veðrið er sæmilegt. Þau hafa ekki mikið úthald, þegar það er svona kalt eins og í dag.
Framundan er svo heil vinnuvika. Alveg spurning hvort maður höndli það, eftir alla þessa frídaga. Gott að það er hvítasunna næstu helgi. Annars yrði þetta hálf vonlaust. Svo er nú ekki langt í sumarfrí. Þetta verður allavega örugglega mjög fljótt að líða.
Jæja ætli þetta verði ekki látið nægja í bili.
kveðja úr vætunni og vindinum
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.