7.6.2015 | 17:39
Smíðar
Kæru bloggvinir
við erum enn að bíða eftir sumrinu. Það hefur verið sæmilegt veður um helgina, en frekar mikill blástur, svo það hefur ekki verið neitt sérstaklega hlýtt. En þetta er fínt vinnuveður. Það er búið að bralla ýmislegt utandyra. Bóndinn er búinn að smíða tvö beð. Það eru komnar jarðarberjaplöntur í annað beðið og óákveðið hvað á að setja í hitt. Það hlýtur að finnast eitthvað. Við tókum niður flaggstöngina og þrifum hana og máluðum stólpann sem heldur henni. Börnin voru mjög dugleg að hjálpa til við að þrífa. Enda flest börn hrifin af að sulla með vatn. Frúin leit svo af þeim augnablik og á meðan stakk Ágúst höndunum á bólakaf í málningarfötuna. Hann var smúlaður fyrir utan húsið og varð að fara í þurr föt.
Tjaldvagninn var opnaður og loftað út. Það er reyndar aldrei neinn raki í honum. Manni langaði bara í útilegu þegar það var búið að opna hann. En það er ekki orðið nógu hlýtt á nóttinni til að sofa í honum.
Við græddum auka frídag á föstudaginn, af því það var þjóðhátíðardagur Dana. Það virðist nú ekki vera haldið hátíðlegt. En fít að fá auka frídag. Það var brunað til Þýskalands og börnin voru klippt. Það er mun ódýrara en í Danmörku. Klippikonurnar tala bara þýsku, en með handabendingum og einhverju babli hafðist þetta. Og viti menn, meðan við sátum og biðum eftir að þær hefðu tíma fyrir okkur, settist hjá okkur maður. Hann fór svo bara að tala íslensku upp úr þurru. Þetta var þá maður sem hefur búið í Danmörku í 21 ár. Alveg ótrúlegt, hvar maður hittir Íslendinga og hvað þeir eru margir.
Næstu vikurnar verður áfram nóg að gera í félagslífinu. Bæði með afmælum og hinu og þessu. Það er skrýtið hvað þetta lendir allt á sama tíma.
Við erum farin að bíða spennt eftir hversu mikla uppskeru við fáum af þessum nytjaplöntum sem við erum komin með. Í fyrra kom ekki nema ein pera á perutréð. En nú lítur út fyrir að það komi fleiri. Og líka á eplatréð.
Við fundum 3 froska hérna ofan í kjallaraglugganum, undir bunka af laufblöðum. Auður sá um að koma þeim út í skóg. Hún er mikil áhugamanneskja um flest kvikindi og safnar pöddum og ormum í fötur. Ágúst gerir auðvitað bara eins og hún.
Bóndinn er búinn að vera að setja ljósmyndir á tölvutækt form, svo þetta glatist ekki. Auður hefur mjög gaman af að skoða gamlar myndir af sér. Ótrúlegt, hvað þetta barn hefur breyst mikið.
Jæja ætli sé ekki best að safna orku fyrir næstu viku. það er aldrei þessu vant, heil vinnuvika.
Kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.