28.6.2015 | 11:11
Sólin er mætt
Kæru bloggvinir
þá höldum við jafnvel að sólin sé komin eitthvað í bili. Það er allavega sól í dag og þeir eru að spá þessu fram í næstu viku. Það var drifið í að setja niður baunaplöntur, svo við gætum vonandi fengið strengjabaunir í sumar. Þær eru rosalega góðar og krakkarnir eru vitlausir í þetta. Bóndinn bjó til smá beð á bak við. Alveg nógu stórt fyrir okkur. Það er ekki mikill tími til að hugsa um svoleiðis, svo það er mikilvægt að sníða sér stakk eftir vexti. Kannski við hendum niður smá gulrótum líka. Þetta er fljótt að koma til, ef það fer að hlýna.
Það er mikið fjör hér á bæ með öll þessi börn. Andri og Helga eru byrjuð að vera smá í húsinu hjá Ástu og Óla, af því þau eru farin til Bandaríkjanna. Það gefur aðeins meira næði fyrir alla aðila. Börnunum finnst nú líka pínu erfitt að vera svona mikið saman. Það er ekki alltaf að samkomulagið er gott.
Auður er komin í sumarfrí í skólanum. Hún verður því bara heima hjá Helgu og þeim þangað til við förum í frí. Frúin þarf að vinna í tvær vikur enn, áður en hún kemst í frí. Vonandi að góða veðrið haldist þangað til. Ágúst fer í frí hjá dagmömmunni á sama tíma og frúin. Hann unir sér vel hjá henni, svo honum er víst nokkuð sama, hvort hann er hér heima eða þar. Það þarf svo að fara að huga að því hvenær við eigum að láta hann hætta hjá dagmömmunni og byrja í leikskóla. Það á nú sennilega ekki eftir að vera mikið mál. Hann er mjög félagslyndur og algjörlega ófeimin. En það tekur samt örugglega smá tíma að venjast á þetta allt saman.
Auður fór með skólanum í Legoland í síðustu viku. Hún var algjörlega búin á því, en fannst mjög gaman. Hún fékk einhvern pésa um Legoland í ferðinni og hefur druslast með hann út um allt. Og er alltaf að skoða hann.
Kötturinn okkar er horfinn. Hefur ekki sést síðan í afmælinu hennar Auðar. Hún hefur nú stundum verið nokkra daga í burtu, en aldrei svona lengi. Það gæti verið það hafi komið eitthvað fyrir hana. Við sjáum til, það er ekkert við því að gera.
Jæja ætli sé ekki best að reyna að nýta blíðuna.
Kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.