12.7.2015 | 17:42
Sumarfrí
Kæru bloggvinir
þá er sumarið farið aftur. Það tók smá pásu. Við höldum kannski það komi aftur í næstu viku, erum allavega að vona það. Okkur finnst við ekki hafa fengið neitt sumar að viti, svo okkur finnst nú hálflélegt, ef það er farið aftur.
Frúin er komin í sumarfrí, svo nú verður hægt að anda rólega næstu 3 vikurnar. Helga og fjölskylda fara heim á miðvikudaginn, það verður nú skrýtið. Þetta hefur gengið mjög vel, en samt alltaf töluvert álag að hafa aukafjölskyldu á heimilinu.
Við fórum á leiksvæði hérna rétt hjá í morgun. Það var stærra, en það sem er hér í bænum og það þótti mjög spennandi. Þau voru mjög dugleg að leika sér þarna í þónokkurn tíma. Við förum örugglega þangað aftur. Annars er ekkert planlagt í sumarfríinu. Kannski við reynum að fara eitthvað með tjaldvagninn. En maður nennir því ekki, nema það fari eitthvað að hlýna. Það er ekkert gaman að liggja í tjaldvagninum og vera að krókna úr kulda.
Börnin hafa verið dugleg úti að leika sér. Frúin var búin að gefast upp á að láta Auði læra að hjóla, hún var engan veginn að ná jafnvægi á þessu tæki. En í dag ákváðum við að draga gripinn aftur fram. Í byrjun var hún nú eitthvað óhress með þetta, en svo hitti hún jafnaldra sinn, sem líka var á hjóli og þá þurfti hún að sýna sig fyrir honum. Það virkaði mjög vel og eftir nokkra túra hér í kring, var hún orðin mun öruggari og mjög ánægð með sig. Við vonum að þetta haldi svona áfram. Þá ætti hún að geta lært að hjóla í nánustu framtíð. Ágúst er líka orðinn mjög góður að hjóla á þríhjóli, hann á þó pínu erfitt með að halda athyglinni á veginum, það er svo margt sem þarf að hafa augun á. En svona er Auður líka. Hún á mjög erfitt með að halda athyglinni á því sem er mikilvægast.
Bóndinn var sendur út að grilla áðan í ágætis veðri, en svo byrjaði að rigna, svo hann varð að standa úti með regnhlíf.
Jæja það er víst ekki mikið annað að frétta héðan
Kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.