19.7.2015 | 15:29
Fólksfækkun
Kæru bloggvinir
sumarið hefur ekki enn komið til baka. Við bíðum spennt. Við nennum ekki að liggja í tjaldvagni þegar það er ekki heitara á nóttinni en það er núna. Kannski verður bara að fresta tjaldútilegu þar til í ágúst. Við sjáum til. Það hlýtur nú að rætast úr þessu. Örugglega þegar maður fer að vinna aftur. Það er oftast svoleiðis.
Það hefur heldur betur fækkað hér í heimilishaldinu í vikunni. Helga og fjölskylda fóru heim á miðvikudaginn. Það er alltaf voða skrýtið þegar það fækkar svona í heimili, en við höldum nú að börnunum hafi þótt ágætt að fá að hafa dótið fyrir sig. Þau eru mjög dugleg að leika sér úti, þó veðrið sé ekkert sérstakt. Það rigndi smávegis í dag og þau hlupu út á tásunum og léku sér. Þau voru óskaplega hrein á fótunum eftir það ævintýri.
Auður fékk að leika sér við vinkonu sína bæði fimmtudag og föstudag. Á fimmtudag kom vinkonan og bankaði upp á kl. 8 um morguninn og þær léku sér til kl. 18:00. ´´An þess að það væri neitt vesen. Á föstudaginn voru þær svo líka saman, en þá var eintómt vesen á þeim. Fyndið, hvað þeð getur verið mikill munur á dögum. Við erum búin að vera að vesenast mikið hérna heima. Enda af nógu að taka. Við réðumst í það í dag að flytja hellur og steina, frá einum húsveggnum. Það er planið reyna að kalka hann á næstu dögum. Þvílíkur munur að vera búin að taka til þar.
Við erum búin að fara á leiksvæði með krakkana bæði í gær og í dag. Auður er búin að vera að æfa sig að hjóla. Það er nefnilega svona stór malbikaður körfuboltavöllur, sem er gott að hjóla á. Henni hefur farið mjög mikið fram. En hún er nú ekki tilbúin að sleppa hjálpardekkjunum. En bara að hún geti hjólað, án þess að þetta sé heljarinnar mál í hvert skipti, þá erum við ánægð. Við erum að spá í að kaupa hlaupahjól handa Ágústi. Það var allavega gott fyrir Auði að æfa jafnvægið á svoleiðis.
Við erum búin að vera voða dugleg að baka, alls konar brauð og kökur. Gott að hafa nesti með, þegar maður fer á leikvelli að leika. Í gær fórum við að gefa öndum brauð. Það var svo mikið rok, að það stóð strókur upp úr vatninu. Það er búið að vera mikið rok hér í sumar. alveg óvanalega mikið. Þetta er orðið mjög þreytandi.
En jæja ekki gengur að kvarta allan daginn. Það þarf að koma mat í börnin.
kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.