Veðrið, já á að ræða það?

Kæru bloggvinir

fyrirsögnin á þessu bloggi segir sennilega meira en orð. Það hefur sem sagt ekki mikið lagast og sennilega bara versnað, ef eitthvað er. Þeir eru að spá roki og rigningu, allavega fram í næstu viku, svo tjaldvagninn verður látinn standa óhreyfður. Það er ekki spennandi að fara í tjaldútilegu í skítaveðri. Auður er að fara í svona smá sumarbúðir næstu helgi. Og plandið er að hún sofi í tjaldi, í 2-3 nætur. Það verður eitthvað að hlýna, til að það verði spennandi. Frúin ætlaði að tjalda úti í garði eina eða tvær nætur, svo hún hefði prófað að sofa í tjaldi, áður en hún færi. Við sjáum hvernig það fer.

Í gær rigndi eldi og brennisteini, en það var ákveðið að galla alla upp og fara út. Börnin þola illa að vera úti allan daginn. Þetta tók eilífðartíma að klæða sig, en börnin skemmtu sér mjög vel. Þau hoppuðu í drullupollum og leituðu að stórum sniglum. Það þarf ekki alltaf mikið til, svo börnin skemmti sér. Frúin er sannfærð um að börnin læra meira af svona vitleysu, en að sitja og spila tölvuspil allan daginn. Enda er hún með eindæmum gamaldags og hallærisleg.! :)

En já, það þýðir ekkert að væla yfir veðrinu alla daga, það verður bara að finna út úr að gera gott úr þessu öllu saman. Börnin finna ekki fyrir þessu, ef við reynum að vera sniðug að nýta okkur þá möguleika sem eru fyrir hendi. Okkur langar að fara í svona dýragarð í næstu viku, sem er bæði með leiktækjum og dýrum. En það verður að sjá hvernig veðrið verður. Við fórum í mjög fínan dýragarð í síðustu viku. Börnin voru alveg í skýjunum og fannst þetta mjög skemmtilegt. Það er alltaf gaman að fara í dýragarða, þar sem dýrunum virðist líða vel. Þessi dýr voru mjög spök og það var hægt að komast nálægt þeim öllum.

Síðan er búið að fara til Þýskalands og kaupa föt á börnin. Það er oft ódýrara að versla föt á þau þar. Svo keypti frúin notuð föt, gegnum netið. Það var svolitið fyndið, að sú sem var að selja þau, var íslensk. Býr einhvers staðar lengst uppi á Norður-Jótlandi. Það er undarlegt hvað maður rekst á landa sína alls staðar.

Við hjónin skelltum okkur í að taka til hér á bak við hús í vikunni. Það var orðið þörf á. Svo er planið að kalka vegginn, ef það verður þurrkur til þess. Það er alltaf eitthvað hægt að finna sér að gera hérna heima við.

Við erum búin að vera mjög dugleg að baka í fríinu. Bóndinn fór í eitthvað kast í gær og varð að baka bæði jólaköku og kryddköku, svona til að rifja upp gamlar minningar úr sveitinni. Svo ætlar hann að baka hjónabandsælu í dag. Við gerðum bæði rabarbarasultu og sólberjasultu í vikunni. Brjálað að gera. Rabarbarinn fékk alveg vaxtakipp eftir við settum meiri skít á hann. Við erum hins vegar ekki viss um að tómatarnir nái að þroskast fyrir haustið. Það vantar sárlega meiri hita.
En jæja, ætli sé ekki best að fara að koma einhverjum mat á borðið.

Kveðja úr Danaveldi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband