9.8.2015 | 18:40
Sumarið er barasta mætt
Kæru bloggvinir
hér hefur verið bongóblíða síðustu daga. Við reynum bara að njóta þess eins og hægt er. Börnin hafa auðvitað notið þess. Þeir eru að spá þessu eitthvað næstu daga líka.
Auður fór í útilegu síðustu helgi. Okkur fannst nú alveg agalegt að skilja blessað barnið eftir þarna, en þetta gekk greinilega allt mjög vel, því þegar við komum að sækja hana á þriðjudeginum, þá valsaði hún þarna um allt og lét eins og hún ætti heima þarna. Það voru mörg dýr á staðnum, af öllum stærðum og gerðum. Börnin hjálpuðu til við að moka út og gefa þeim að borða og svoleiðis. Svo var auðvitað sungið mikið og leikið sér. Auður fór að hágráta þegar hún átti að fara heim og vildi vera þarna áfram. En það gengur auðvitað ekki. Svo við fengum hana loksins heim. Hún er svo búin að vera í skólavistun síðustu viku. Það hafa nú ekki verið mörg börn, en það er sennilega fínt, þá geta þau komist hægt og rólega í gang aftur.
Svo byrjar skólinn hjá dótturinni fyrir alvöru á morgun. Hún er mjög spennt. Þetta er náttúrlega alltaf mjög merkilegt. Hún fékk bréf með póstinum um helgina, frá kennaranum. Hún skrifaði bréf til þeirra sem eiga að byrja. Þetta þótti Auði auðvitað mjög spennandi. Ekki á hverjum degi sem hún fær sendibréf.
Við fórum á ströndina í dag. Vorum nú hálf efins um, hvort það væri nógu heitt. En það var mjög fínt og börnin nutu þess að drullumalla og synda. Það var hellingur af fólki. En þessi strönd er svo lítil, að það er aldrei neitt troðið þarna.
Ágúst hefur verið óskaplega þreyttur eftir að vera byrjaður hjá dagmömmunni aftur. Þau keppast um að tala sem hæst. Það er frekar erfitt að hlusta á til lengdar.
Í góða veðrinu í gær var ákveðið að slá upp tjaldi til að leyfa börnunum að prófa útilegu í garðinum. Frúin var sett í að sofa hjá þeim. Maður er nú ekkert unglamb lengur, svo þetta var ekkert sérstakt fyrir skrokkinn. Ofan á allt voru svo tónleikar inni í Gram í gær. Þó það séu 3 km þangað, þá heyrðist tónlistin hingað heim í garðinn. Svo er nú oft ansi mikil umferð hér um veginn. Frúin fékk þá snilldarhugmynd að tjalda tjaldvagningum hér á bak við og svo er planið að sofa í honum í nótt. Það ætti að fara aðeins betur um mann þar. Annars er stærsta vandamálið sennilega rakinn, sem gerir það að verkum að það er hundkalt á nóttunni.
Næstu helgi verður nú aldeilis merkisviðburður þegar bóndinn nær mikilvægum tímamótum í lífinu. Hann ætlar að bjóða nokkrum í kaffi og kökur, svo það er bara að bretta upp ermarnar og fara að baka. Þetta verður nú ekkert margmennt, en það þarf sennilega að gefa fólkinu eitthvað að borða.
Jæja ætli sé ekki best að safna kröftum fyrir nóttina.
kveðja frá útilegufólkinu
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.