Sumar í stutta stund

Kæru bloggvinir

það er búið að vera hið fínasta veður hér síðustu daga, svo við verðum víst að reyna að hrósa því, af því við erum nú búin að væla svo mikið yfir því í allt sumar.

Bóndinn hefur klárað sig nokkuð vel af því að vera orðinn svona gamall. En það er svo sem ekki komin mikil reynsla á það. Við sjáum hvernig hann vinnur úr þessu. Börnin eru ennþá að syngja afmælissönginn fyrir hann. Þau hætta því kannski þegar Ágúst á afmæli.

Auður fór með skólanum á safn, þar sem er sýnt hvernig allt var gert í gamla daga. Hún var mjög upptekin af þessu og kom heim með malað hveiti í poka. Hún hafði hjálpað til við að mala það. Það var mjög spennandi. Svo sá hún hvernig var heyjað með orfi og ljá. Þetta virtist allavega hafa fengið hana til að hugsa um ýmislegt.

Það er búið að vera nóg að gera, eins og venjulega.  Bóndinn er duglegur að finna verkefni. Það verður sennilega aldrei vöntun á þeim í þessu húsi okkar. Hann var svo heppinn að finna notaða hrífu til að draga á eftir sláttutraktornum, svo nú getur hann rakað innkeyrsluna og þarf ekki að eitra eða brenna grasið. Það má ekki eitra, af því við búum svo nálægt vatnsveitunni. Þetta ætti því að gera auðveldara að hugsa um innkeyrsluna. Hann er búin að leita að svona mjög lengi, en það er erfitt að fá þetta notað. Og þessar nýju eru frekar dýrar. Þegar við fórum að sækja þessa hrífu, fórum við á ströndina í leiðinni. Það var mjög hlýtt, en mjög mikið rok. Auður safnaði fullum poka af skeljum. Það finnst henni mjög skemmtilegt. Hún gleymir svo yfirleitt að hún á þær, en hefur gaman af að safna þeim. Svo eru þær látnar hverfa.

Næstu vikuna á að vera rigning mest allan tímann. Það hjálpar gróðrinum, en við hefðum svo sem alveg viljað hafa sól aðeins lengur. Við smökkuðum bæði nýja tómata úr eigin ræktun og epli um helgina. Það er ekkert eins og bragðið af eigin ræktun. Við höfum verið svo heppin að gömul kona sem við þekkjum, hefur gefið okkur nýjar kartöflur. Við erum að spá í að reyna að koma niður kartöflum aftur næsta ár. Bara ekki svo mikið. Allur gróður er mjög seinn í ár, út af því það hefur verið svo lítil sól. En við vonum við náum að njóta einhverrar uppskeru.

Jæja best að fara að hvíla sig

kveðja

Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband