30.8.2015 | 11:59
fastir liðir eins og venjulega
Kæru bloggvinir
hér er allt að færast í réttar horfur eftir frí. Sumarið stoppaði ekkert lengi. Enda hefðum við sennilega ekki höndlað það. En það er svo sem ágætis veður. Það hefur allavega hlýnað, svo að gróðurinn hefur náð sér betur á strik. Tómatarnir eru allir að þroskast og eplin eru líka að verða klár, svo einhver uppskera verður hjá okkur. Við höfum verið svo heppin að fá helling af nýjum kartöflum hjá bónusömmu barnanna. Það er algjörlega ómissandi að fá smá nýjar kartöflur á sumrin. Ætli við reynum ekki að henda niður nokkrum næsta sumar.
Auður er mjög ánægð í skólanum og þetta hefur gengið betur en við þorðum að vona. Við heyrum frá fólki sem er tengt skólanum að hún virðist glöð og sé alltaf að leika með börnunum. Ef maður spyr hana þegar hún kemur heim, þá segist hún ekki hafa verið að leika við neinn. Hún er mikið að spá og spekulera og spyr ýmissa undarlegra spurninga. Hún er nú samt mjög þreytt og oft pirruð þegar hún kemur heim á daginn. Það er oftast merki um að hún sé að prófa eitthvað nýtt sem reynir á hana. En það er nú ósköp eðlilegt. Bróðir hennar apar allt upp eftir henni, bæði gott og slæmt. Hann er fljótur að læra lögin sem hún er að syngja. Hún syngur mjög mikið. Hann er orðinn mjög duglegur að vera ekki með bleiu. Það gerast ennþá slys, en það er voða sjaldan. Hann er mjög stoltur af þessu og foreldrarnir auðvitað líka. Það er líka töluverður sparnaður af því að þurfa ekki að kaupa bleiur, nema til að hafa á nóttinni. Hann er að verða sá elsti hjá dagmömmunni. Jafnaldra hans er að byrja í leikskólanum á þriðjudaginn. Það er verið að stefna að því að hann byrji 1. nóvember. Hann spáir nú ekki mikið í það, Auður er mjög spennt fyrir hans hönd. Hana langar mikið að heimsækja gamla leikskólann sinn.
Auður missti enn eina framtönnina um daginn. Það verður ekkert smá skrýtið þegar hún fær tennur aftur. Hún er búin að vera tannlaus svö lengi. Hún reif þessa síðustu bara úr sjálf. Henni hefur sennilega verið eitthvað illt í henni. Það er örugglega ekkert spennandi að vera með lausar tennur. Við bökuðum bollur í gær og notuðum hveitið sem Auður hafði malað sjálf. Henni þótti þetta mjög spennandi. Við fórum að heimsækja bónusömmu þeirra í gær og þau fengu bæði baunir og epli beint úr garðinum. Þau eru mjög hrifin af þessu öllu. Þau eru líka óskaplega áhugasöm um skorkvikindi. Ágúst kom inn með fulla lúku af einhverjum lirfum og vildi taka þær með heim. Við vorum ekkert gríðarlega spennt. Auður fer á bókasafnið í skólanum í hverri viku og kemur heim með bækur um einhver dýr. Hana langar óskaplega að búa á bóndabæ. Hún hlýtur að hafa þennan dýraáhuga frá pabba sínum. Hún vill líka endilega fara á reiðnámskeið. Já það er ekki slegið slöku við hjá ungfrúnni.
Jæja ætli sé ekki best að reyna að slaka á fyrir átök næstu viku
kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.