6.9.2015 | 11:39
Haust
Kæru bloggvinir
þá er haustið víst mætt á svæðið. Það er hressilegt rok og í gær var ausandi rigning. Á föstudaginn rigndi svo mikið sums staðar að það varð að loka vegum. Þeir eru nú samt að lofa einhverju betra í næstu viku. En það finnst alveg að það er komið haust í loftið.
Við erum enn að fá nýja tómata á hverjum degi. Gulræturnar eru víst líka farnar að kíkja upp og rabarbarinn er í fullum gangi. Það getur því endað með því að það verði einhver uppskera í ár. Maður hafði smá áhyggjur af þessu á tímabili. Það er allavega gott að maður hefur ekki lífsviðurværi sitt af grænmetisuppskeru í ár. Það væri ekki mikið upp úr því að hafa. Bændurnir eru nú ekkert mikið að kvarta. Ekki þeir sem við höfum hitt allavega.
Annars er hér allt við það sama. Auður hefur verið eitthvað voðalega pirruð undanfarið. Við erum ekki alveg að skilja af hverju. Það er töluvert álag á henni að vera byrjuð í skólanum, og svo er hún auðvitað lika pirruð á að hafa ekki herbergi út af fyrir sig. Við erum að reyna að breyta. Tókum alsherjar hreingerningu í herberginu í morgun og fórum upp á loft með helling af dóti. Auður leikur sér nánast aldrei með dótið sitt, svo það er ástæðulaust að láta það taka allt plássið í herberginu. Nú er bara dót frá Ágústi. Hann er duglegri að leika sér. Það verður spennandi að sjá hvort þetta á eftir að breyta einhverju. Samstarfskona frúarinnar ætlar að gefa henni gamalt skrifborð, sem hún ætlaði að henda og við vonum að það hjálpi að hún geti haft sitt dót í friði. Þá getur hún farið inn í herbergi og slakað á og verið í friði. Auður er búin að vera að leika mikið við vinkonu sína hérna á móti. Í gær voru þær eins og hundur og köttur, en í dag eru þær búnar að vera bestu vinkonur. Það er ómögulegt að segja hvað ræður þvi, hvernig þeim kemur saman. En gott þegar þær ná að njóta hvors annars. Þær eru voða góðar saman þegar vel gengur.
Jæja það er víst ekki mikið annað að frétta héðan
Kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.