Afmælishöld

Kæru bloggvinir

þá er enn og aftur komin sunnudagur. Maður er alltaf jafn hissa á, hvað tíminn flýgur áfram. Það verður bráðum ekki komist hjá því að það sé að koma vetur. Það hefur reyndar verið mjög fínt veður undanfarið, svona smá sumarauki. Við fengum nú ekki svo mikið sumar, svo við eigum það alveg skilið. Við erum búin að bjarga mest öllum tómötunum í hús. Þetta varð alveg ágætis uppskera þegar upp var staðið. Við fengum helling af eplum gefins, svo það voru góð ráð dýr. Við sáum ekki fram á að ná að borða þetta allt áður en það eyðilagðist. Það var því ráðist í að gera eplamarmelaði og eplaköku hér í gær. Frúin átti plómur í frystinum og þessu var blandað saman við eplin. Úr þessu varð þetta fína marmelaði. Danir eru mikið í að gera alls konar marmelaði og þetta er ekkert mál. Frúin hefur alltaf haldið að það þyrfti nánast háskólagráðu í þetta. En núna er bara að ráðast í að prófa sig áfram. Eplakakan varð líka alveg rosalega góð. Bóndinn sá um að baka hana.

Á föstudaginn var okkur boðið í tvöfalt 50 ára afmæli hjá fólki sem við þekkjum eiginlega ekki neitt. Bóndinn hafði aldrei hitt þau. En af því við erum komin inn undir í þetta kristna samfélag, þá er okkur greinilega boðið í margt. Það var mjög fyndið að það var ekkert af fjölskyldum fólksins í veislunni. Fyrir utan foreldra þeirra og börn. Annars var þetta mest allt fólk úr trúarsöfnuðinum sem þau eru í. Bóndanum fannst nú pínu kjánalegt að mæta í afmæli hjá fólki sem hann hafði ekki séð. En sem betur fer hafði frúin hitt þau, svo þetta var ekki alveg eins kjánalegt. Það var boðið upp á smurbrauð og rúgbrauðstertu. Það verður víst ekki mikið meira suðurjóskt. Þetta bragðaðist allt saman ágætlega. Þetta var haldið út í bílskúr hjá fólkinu. Það er mjög algengt hér, að halda veislur í bílskúrnum.

Í gær var svo verið að gera húsverkin. Það er ótrúlegt, miðað við að maður er nú alltaf að taka eitthvað til. Og samt finnst manni maður aldrei ná að gera allt. En svona er þetta víst bara. Gott að maður þarf ekki að slátra skepnum og gera slátur líka. Veit ekki hvenær það ætti að vera tími í það.

Nú styttist í að Ágúst byrji í leikskóla. Það verður nú skrýtið. Það kostar allavega meiri tíma á morgnana að koma honum inn til Gram, í staðinn fyrir að labba með hann hérna fyrir hornið. En þetta reddast nú örugglega allt. Maður þarf bara að venja sig við það. Auður vildi endilega fara að labba sjálf í strætóinn á morgnana, en við erum nu eitthvað treg við það. Hún kemur sjálf heim á daginn, en þá er heldur ekki svo mikil umferð í kringum vélaverkstæðið, þar sem þau biða eftir strætó. En það er mjög gott að hún vill sjálf prófa. Hún er almennt orðin meira frökk, eftir hún byrjaði í skólanum. Það er samt greinilegur munur á þeim systkinum, hann veður  að fólki og blaðrar við það, hvort sem hann þekkir það eða ekki, á meðan hún er meira feimin. Það mætti halda þau ættu sitthvora foreldrana. Hlutirnir eru bara oft mikið auðveldari fyrir börn sem eru ófeimin. Kannski nær þetta að eldast af henni.

I dag er svo planið að fara í sirkus. Eða frúin og börnin fara. Það er bankinn þeirra sem er að bjóða. Það er nú alveg ótrúlega léleg þjónusta í bankanum, en gott ef börnin geta notið þess einu sinni á ári að komast í sirkus. Það er nú líka alveg fyndið, hvað Danir eru mikið eftir á með alla bankaþjónustu. Frúin fékk ávísun í pósti um daginn. Hún hafði sagt upp tryggingu og fékk pening til baka. Hún hélt því í bankann sinn og ætlaði að fá að leysa út ávísunina. En nei, það var ekki hægt. Ávísunin varð að fara í póst í sérstakt umslag. Hún var svo send í aðalbankann og svo kom þetta inn á reikninginn eftir nokkra daga. Það er heldur ekki hægt að millifæra pening í netbankanum um helgar og á kvöldin. Um daginn ætlaði bóndinn að fara í bankann og leggja inn pening sem hann hafði fengið í afmælisgjöf. En það var bara hægt í ákveðnu útibúi 35 km héðan. Það er skiljanlegt að það séu gerðar ráðstafanir til að sporna við bankaránum og hafa ekki mikinn pening í bönkunum, en þetta er nú kannski einum of.

Jæja best að fara að gera sig kláran fyrir sirkusinn

Kveðja

Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband