18.10.2015 | 10:53
Haustfrí
Kæru bloggvinir
þá er fríið víst að renna sitt skeið. Það hefur ýmislegt verið brallað. Þau systkin verða eflaust fegin að komast aftur í venjulega ramma. Þau eru orðin frekar þreytt á hvort öðru. Það er komið haust í loftið og laufin á trjánum farin að gulna og fjúka um. Það sést vel hér fyrir framan.
Það er búið að kaupa vetrarbúnað á fjölskylduna, eina sem vantar eru kuldaskór á frúna. En það hlýtur að finnast einhvers staðar. Auður virðist því miður ætla að erfa fótastærð foreldra sinna og er strax komin í stór númer af skóm. Vonandi að hún taki þetta bara fljótt út og þetta endi ekki ein og hjá mömmu hennar. Það er ekkert sérstaklega gaman að vera svona stórfættur þegar maður er kvenmaður. Sérstaklega ekki þegar maður vill vera pæja eins og hún. Hún var búin að suða lengi um að fá göt í eyrun og það var látið verða úr því í vikunni. Hún stóð sig mjög vel og grét bara smávegis, en hún varð sennilega mest hrædd við lætin í gatabyssunni. Hún hefur ekkert verið að fikta í þessu og er bara voða ánægð. Þessir lokkar eiga að vera í næstu 6-8 vikur og svo má hún fá aðra lokka í. Þetta er víst orðið mikið minna vesen en í gamla daga. Það verður nú eitthvað þegar hún fær að ráða hvaða lokka hún vil hafa. Frúin hefur aldrei haft göt í eyrunum, svo hún er ekki mjög klár í þessu. Kannski pabbinn verði gerður að sérfræðingi í þessum efnum.
Við fórum á Víkingasafnið í Ribe. Við höfum aldrei prófað það, en heyrt töluvert mikið um það. Það var mjög skemmtilegt. Það voru íslenskir hestar, kýr og kind. Svo var slátrað bæði gæs og hænum fyrir framan áhorfendur. Börnunum þótti þetta mjög spennandi, en þau vorkenndu líka pínu dýrunum.
Á föstudaginn fórum við svo til Odense. Við fórum á mjög skemmtilegt safn sem tengist H. C. Andersen bókunum. Þar var lesið upp ævintýri og börnin gátu klætt sig eins og prinsessur og hermenn. Þau fengu svo líka voða fína andlitsmálningu. Þeim þótti þetta nú ekki leiðilegt. Við gistum svo hjá vinum okkar í Odense, af því það átti að halda upp á afmæli Sigvalda í gær. En hann varð svo bara veikur og fékk hita og gubbupest. Það varð því ekkert úr afmælishaldi. Stóru strákarnir horfðu á fótbolta í staðinn. Þau tala töluvert við nágranna sinn, sem er einstæður eldri maður. Hann heilsar okkur alltaf og kallar okkur mojnfólkið, af því við komum frá Suður-Jótlandi, þar sem maður segir alltaf mojn þegar maður kemur og fer. Það gera þeir ekki á Fjóni.
Á föstudaginn er svo von á góðum gestum. Gunna og Bragi ætla að kíkja í stutta helgarheimsókn. Það verður nú ekki leiðilegt að fá það sómafólk í heimsókn. Það er búið að senda þau í leiðangur að finna hangikjöt og ýmislegt góðgæti til jólanna. Það er um að gera að vera séður í þessum málum. Það verða sennilega ekki fleiri heimsóknir fyrir jól. Og jólin eru nú aldrei alveg þau sömu, nema maður fái hangikjöt. Hamborgarahrygginn getum við keypt í Þýskalandi.
Í morgun var skorið út grasker. Það var mest pabbinn sem stóð fyrir því. Börnin misstu fljótlega þolinmæðina. En þetta er alltaf spennandi í byrjun.
Jæja best að fara að safna kröftum fyrir komandi vinnuviku. Það verður nóg að gera eins og venjulega. Það er orðið svo mikið að gera í félagsmálunum eftir að Auður byrjaði í skóla. Þetta er að verða full vinna. Hún er búin að eignast tvær góðar vinkonur og þá þarf að skipuleggja heimsóknir til þeirra og öfugt.
Kveðja
Tisetgengið
Athugasemdir
Mojn
Búin að redda hangikjöti og harðfisk, hinu verður reddað í vikunni. Hlökkum til að hitta ykkur.
Mojn, mojn.
Gunna og Bragi
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 18.10.2015 kl. 12:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.