15.11.2015 | 13:11
Laufrok
Kæru bloggvinir
hér er enn óvenju hlýtt miðað við árstíma. Laufin fara smátt og smátt og svo kemur hressilegt rok og þá hverfur restin af laufunum. Það er ekki mikið eftir á trjánum núna.
Ágúst hefur verið í leikskólanum alla síðustu viku og algjörlega búinn á því þegar hann kemur heim. Hann gefur sér ekki alltaf tíma til að sofa eftir hádegið og sennilega hafa fóstrurnar ekki tíma til að sitja hjá þeim, þangað til þeu eru sofnuð. Hann er mjög ánægður, allavega ennþá. Þetta er nú allt svo nýtt ennþá. Það verður kannski ekki eins gaman þegar þetta verður orðin hversdagskostur.
Það er búið að vera nóg að gera í félagslífinu um helgina. Á föstudaginn var vinakvöldverður. Það var sérstaklega gert mikið fyrir krakkana og þeim fannst þetta mjög skemmtilegt. Ágúst er algjört sjarmatröll og veður inn í alla. Auður er líka orðin mikið minna feimin eftir hún byrjaði í skólanum. Þeir sem hitta hana í skólanum og eru í vinakvölmatnum segja hún sé glöð alla daga og komi hlaupandi á móti þeim þegar þau koma í skólann. Það er auðvitað vleikoða gaman. Við vorum í foreldraviðtali líka í síðustu viku. Hún er orðin betri að hlusta og fylgjast með. Enda búið að setja hana fyrir framan kennarann. Hún er eitthvað að ruglast á tölunum og bókstöfunum og við verðum að reyna að æfa hana í því. Hún hefur mikla umhyggju fyrir bekkjarfélögunum og spáir mikið í því. Hún vill helst teikna mynd og fara með á hverjum degi og gefa einhverjum. Hún fékk gömul bréfsefni og umslög frá einum vinnufélaga frúarinnar. Það var mikið ævintýri og hún hefur mjög gaman af því að skrifa eitthvað á þetta.
Í gær var svo leikdagur hjá bekknum hennar í íþróttasal hérna rétt hjá. Það voru leikir bæði fyrir fullorðna og börn. Þetta var mikið fjör. Auður og bekkjarsystur hennar eru byrjaðar að vilja leika hjá hver annarri, svo það er nóg að gera. Börnin hérna eru mjög virk au í öllu mögulegu eftir skóla, svo það getur verið erfitt að finna daga sem þau geta hist.
Ágúst er mikið að reyna á þolrif foreldranna þessa dagana. Hann vill auðvitað ráða öllu og telur ekki að hann eigi að gegna. Hann getur blaðrað alveg endalaust nema hann sé stoppaður af. Hann skilur ekkert í því að fólk geti ekki bara hlustað á hann allan daginn. Auður hefur aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af böngsum en nú er hún æst í að hafa bangsa með í sér í skólann. Vinkonur hennar gera það líka. Ágúst hefur hins vegar frá byrjun verið mikið meira hrifin af ákveðnum böngsum.
Allar búðir eru að fyllast af jóladóti. Það er nú pínu erfitt að komast í jólaskap þegar það er ennþá 10 stiga hiti hérna á daginn. Í dag var skellt í rabarbarasultu. Það tilheyrir einhvern veginn þessum árstíma. Bóndinn dreif í að gera hjónabandsælu. VIð erum að vonast til að geta keypt smá lambakjöt fljótlega. Það er ansi sjaldan maður kemst í almennilegt kjöt. Það er líka svo rosalega dýrt.
Við sjáum okkur ekki fært að senda jólakort með póstinum í ár þar sem verðið er orðið glæpsamlegt. Það verður að notast við rafrænar kveðjur í ár. Því miður. Það er voða leiðilegt að geta ekki haldið í þessa hefð. En það kostar yfir 200 kr, bara að senda eitt bréf, svo það er fljótt að safnast saman.
En jæja best að fara að stilla til friðar, áður en börnin bíta höfuðið af hvort öðru.
kveðja
Tisetgengið
Athugasemdir
Hæ, hæ
Greinilega alltaf nóg að gera hjá ykkur, fengu þið eins góðan mat og þegar við vorum í vinakvöldverðinum? Hér er kominn vetur og við þurft að skafa bílinn undanfarna daga. Planið er að setja nagladekkin undir á morgun. Við fórum í bæjarferð í dag og keyptum nýtt sófasett, það gamla var orðið ansi dapurt. Það var tilboð á sófum í Jysk(RL) svo við fengum sófasett á viðráðanlegu verði.
Annars er allt gott að frétta héðan úr Garðinum.
Kveðja
Gunna og Bragi
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 15.11.2015 kl. 16:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.