29.11.2015 | 12:26
Jólaskraut
Kæru bloggvinir
það hefur nú verið eitthvað óákveðið veðrið hjá okkur í vikunni. Það byrjaði með frosti, en svo kom aftur hlýindi. Það er mjög mikill raki, svo það er frekar hrollkalt, þó það sé ekki frost. Það hefur verið hiti á daginn, en niður undir frostmarki á nóttinni. Frúin dreif í að fá vetrardekkin undir bílinn í vikunni. Það er sennilega öruggast, þó það sé ekki komin hávetur hérna.
A föstudaginn var stíft prógramm. Frúin hætti að vinna snemma og byrjaði að fara á jólaföndur í skólanum hjá Auði. Það var mjög fínt og við föndruðum eitthvað smá jólaskraut. Svo var farið beint á jólaball í leikskólanum hjá Ágústi. Þar mætti jólasveinn. Í ár var hann í buxum, en skeggið var allt laflaust. Þau voru ekkert hrædd við hann og fengu hjá honum nammipoka. Svo var dansað kringum jólatréð og sungið. Það voru því ansi þreytt börn sem fóru að sofa hér á föstudagskvöldið. Þau hafa verið með hálfgerða timburmenn alla helgina. Það hefur verið mjög erfitt að fara eftir fyrirmælum og nánast ómögulegt. Í gær var farið í að setja upp jólaskraut úti og inni. Það er nú hellingur eftir. En þa er nauðsynlegt að hafa aðventuljós og aðventuskreytingar á fyrsta sunnudegi í aðventu. Í ár var farið í að gera öðruvísi aðventukrans. Frúin hefur nú ekkert sérstaklega græna fingur, en útkoman varð bara alveg prýðileg, þó ég segi sjálf frá. Svo fórum við út í skóg í gær að finna hnetur og köngla, til að gera meira skraut. Þetta var allt svo rennandi blautt að það varð að henda þessu í ofninn þegar við komum heim. Þetta er nú eitthvað að þorna. Kannski við gerum einhverja skreytingu í viðbót. Börnin eru vön að gera í leikskólanum, svo maður er ekki vanur að þurfa að standa í þessu sjálfur. Ágúst gerði reyndar litla skreytingu í leikskólanum, en okkur fannst það ekki alveg nóg.
Svo verður mánuðurinn sennilega notaður til að skreyta meira og gera fínt. Það er mjög gaman að gera þetta svona smám saman og börnin njóta þess líka. Þau eru mjög spennt fyrir þessu öllu. Eiginlega í fyrsta skipti sem þau eru svona upptekin af þessu. Allavega Auður Elín og þegar hún er það, þá verður Ágúst Ægir það líka.
Hann er orðinn mjög sáttur við að vera á leikskólanum, en hefur ekki ennþá alveg náð að sleppa því að pissa á sig. En það er nú sennilega líka af því að hann kannski er að leika sér, langt frá klósettinu og nær ekki að komast í tæka tíð. Hann er voða frakkur og ekkert feiminn við að spyrja leikskólakennarana um hjálp. Auður var mun lélegri við það. Hann er mjög mikið að reyna að komast upp með allt. Það tilheyrir sennilega þessum aldri.
Auður lék við Ágústu vinkonu sína í gær, af því hún er hjá pabba sínum um helgina og þær eru aftur að leika saman núna. Börnin sváfu til kl. í morgun. Það hefur örugglega ekki gerst áður. Þau voru reyndar búin að vakna fyrr í morgun og sofnuðu svo aftur. En þetta setti alla dagskránna úr gír. Það eru vön að fá annaðhvort snakk, eða einhverja ávexti um helgar, áður en þau borða morgunmatinn, en það var ekki tími í það í morgun. Þetta var all slæmt.
Jæja ætli sé ekki best að safna kröftum fyrir næstu vinnuviku.
Kveðja
Tisetgengið
Það er ekki enn búið að ráðast í jólabaksturinn, bóndinn heldur að við höfum aldrei verið svona sein í því eins og núna. Það verður að reyna að ráða bót á því sem fyrst.
Athugasemdir
Hæ, hæ.
Hér er komin ein sería í glugga, erum að leita að aðventuljósinu, við erum víst ekki alveg með það á hreinu hvað við gerðum við allt í flutningunum í sumar. En þetta hlýtur að finnast bráðlega. Hér er allt í snjó en hann er nú bara passlegur hér suður frá. Það snjóaði víst miklu meira í bænum. Gott að allt gengur vel í skólanum og leikskólanum hjá börnunum en hvað er að frétta af Nonna er hann búin að ná sér eftir að Bragi hætti að leika við hann.
Annars er bara allt gott að frétta héðan og allir við þokkalega heilsu.
Kveðja
Gunna og Bragi
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 29.11.2015 kl. 13:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.