13.12.2015 | 18:25
Allt klárt fyrir jólin
Kæru bloggvinir
þá mega jólin koma, við erum að verða tilbúin. Það er líka að fara að kólna í veðri, svo ætli þetta fari ekki bara að skella á, allt saman.
Við kláruðum jólagjafainnkaupin í gær, og sendum smá pakka til Íslands í dag. Þetta er orðið svo óhuggulega dýrt að við sjáum okkur ekki fært að senda jólakort í ár. Það verður að henda inn eins og einni facebookmynd og kveðju. Það er auðvitað ekki eins skemmtilegt, en það verður að hafa það. Við renndum til Þýskalands í gær og keyptm jóla- og áramótamatinn. Vorum svo heppin að lenda á tilboði á kalkún, hann er annart frekar dýr hérna í Danmörku. Flestir Danir borða önd á jólunum. En við ætlum nú bara að halda okkur við hamborgarahrygginn og kalkún á áramótunum.
Næstu helgi er svo stefnt á að öll fjölskyldan fari í klippingu, ekki bara út af því að það eru að koma jól, en líka af því að það er orðin ansi mikil þörf á því.
Hér hefur verið mikill spenningur eftir að jólasveinarnir fóru að koma hingað í sveitina. Þau eru nú hálfhrædd um að hann sé ennþá upp í glugganum þegar þau vakna á morgnana. Auður skilur þetta auðvitað betur og er tilbúin að kíkja í skóinn á hverjum morgni. Ágúst er eitthvað meira smeykur. En auðvitað kokhraustur þegar hún sér til.
Við fórum í vinakvöldverð á föstudaginn, það var veislumatur. Önd og brúnaðar kartöflur. Og risalamand í eftirrétt. Svo gerðu börnin jólasmákökur og það var farið í pakkaleik. Auður sópaði að sér pökkum, en við hin fengum eitthvað minna. Hún var auðvitað mjög sátt við þetta. Það voru þreytt börn sem fóru í bólið þann daginn.
Á morgun er bekkurinn hennar Auðar að fara að hlusta á gospeltónlist í Aabenraa. Hún er voða spennt. Þau verða ekkert að læra í skólanum á morgun. Fara bara í heljarinnar túr. Hún er meira að segja búin að ákveða að fara í buxum á morgun, annars er hún alltaf í sokkabuxum og kjól. Hún heldur sennilega að það sé betra að vera við öllu búin, því þau eiga að fara eitthvað út í skóg líka. Hún hefur miklar áhyggjur af því að við erum ekki enn búin að ná í jólatré. Flestir Danir eru búnir að því og henda því svo út á jóladag. Við erum að reyna að útskýra fyrir henni að við tökun það seinna inn og höfum það lengur. Svo reiknar hún líka með að við dönsum kringum jólatréð og syngjum, eins og Danir gera. VIð verðum að sjá til, hvað við gerum í því.
Jæja best að fara að safna kröftum fyrir næstu vinnuviku.
Kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.