Síðbúinn jólasnjór

Kæru bloggvinir

þá kom jólasnjórinn loksins til okkar. Börnin voru mjög sátt við þetta og Ágúst var ekkert smá spenntur að fá að fara með snjóhanskana í leikskólann. Það var dregin fram snjóþota og engu til sparað. Síðan hefur þetta nú að mestu rignt í burtu. Þeir eru að spá einhverjum umhleypingum á næstunni, svo þetta er spennandi. Það er nú alltaf ágætt með smá snjó, svona til að birta upp daginn. Það hefur verið mjög mikil grámygla hér í vetur og sjaldan heiðskírt. En það er óttalegt vesen ef það fer að snjóa mikið og skafa.

Það var ansi erfitt að komast í gang aftur eftir frí. Börnin voru víst bara fegin að komast aftur í fasta ramma. En þau eru búin að vera voða þreytt og Ágúst hefur verið frekar lítill í sér. Þegar frúin sótti hann á föstudaginn var hann hvergi sjáanlegur. Hann fannst inni í eldhúsi. Þá voru einhverjir gaurar búnir að skrúfa frá vatni og það var vatn út um allt gólf. Og enginn af starfsfólkinu hafði tekið eftir því. Það má auðvitað ekki hafa lokað inn í eldhús. Það á allt að vera svo frjálst. Sonurinn stóð þarna á miðju eldhúsgólfi, blautur upp fyrir haus og skildi ekkert í þessu. En það er svo sem ekki mikið hægt að skamma barnið, það er auðvitað á ábyrgð starfsfólksins að koma í veg fyrir svona lagað. Þær tóku þessu nú bara vel. Það eru óvanalega mörg börn á deildinni hjá Ágústi, en það er verið að bæta við fólki og þeim er skift upp í minni hópa, svo þau séu ekki alltaf svona mörg saman. En það er alltaf verið að spara, svo það er ekkert allt of mikið af starfsfólki.

Auður var mjög ánægð að komast í skólann aftur. Hún saknaði kennarans síns svo mikið og auðvitað líka krakkanna. Hún pælir voða mikið í bókstöfum og tölum þessa dagana. Þetta er smám saman að síast inn. Við höfum lengi verið að leita að nýrri kúlusæng handa henni. Þetta er glæpsamlega dýrt að kaupa nýtt, en við vorum svo heppin að detta niður á eina notaða í Horsens. Það er 1 1/2 akstur héðan. Það var því lagt af stað snemma í gærmorgun og fjárfest í einu svona stykki. Þetta á nú að endast í nokkur ár. Þetta hjálpar henni allavega rosalega mikið til að slaka á, svo við myndum ekki vilja vera án þess.

Okkur var svo boðið í mat hjá aukaömmunni í gærkvöldi. Hún bauð upp á rauðrófusúpu. Það höfum við aldrei smakkað, en þetta var alveg fínasti matur. Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Í morgun fórum við mæðginin út að drullumalla í slabbinu. Það þykir honum hin besta skemmtun. Hann er rosa duglegur að dunda sér úti og finna sér eitthvað að gera. Hún var það líka á hans aldri, svo hefur þetta breyst. Hún vill mjög gjarnan fá að sitja inni og horfa á sjónvarpið, eða spila á spjaldtölvuna. Hún vill meina að allir í bekknum eigi eina slíka og það sé bráðnauðsynlegt fyrir hana að eiga svoleiðis. Við erum nú eitthvað treg að kaupa svona tæki fyrir hana. Við erum alveg hrikalega leiðilegir foreldrar.

Í dag er svo stefnt á að fara í afmæli hjá Eydísi, dóttur Óla og Ástu, vina okkar hér í Gram. Hún er að fara til USA á morgun, svo það er ekki seinna vænna en að halda smá partý. Hún er búin að vera í skóla úti í heilt ár og ætlar að vera lengur.

Jæja ætli þetta sé ekki komið nóg af ævintýrum í bili.

kveðja

Ragnhildur og restin af genginu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband