24.1.2016 | 12:49
Snóþotuævintýri
Kæru bloggvinir
Hér snjóaði töluvert á föstudag og það eru ennþá smá leyfar eftir. Það er sjaldan sem það kemur svo mikill snjór að hann hangi í nokkra daga. Það varð því að fara og reyna að kenna börnunum að renna á snjóþotu. Ágúst átti ekki snjóþotu, svo það varð að bæta úr því. Þau kunna ekkert almennilega á þetta, og verða örugglega búin að gleyma því, næst þegar kemur snjór. Það er allavega komin hláka núna, og við höfum ekki heyrt hvenær það kemur aftur snjór. En þá eru græjurnar allavega tilbúnar.
Við fórum í vinakvöldverð á föstudaginn. Það voru ekki margir, en þetta var mjög huggulegt. Börnin eru gríðarlega hrifin af þessu. Auður fékk að taka vinkonu sína með heim úr skólanum á föstudaginn. Þær voru voða góðar að leika sér saman. Það er svolítið fyndið að þær voru saman í svona ungbarnahóp þegar þær voru nýfæddar. VIð verðum að sjá hvort við finnum myndir af þeim síðan þá, það væri fyndið að sjá. Í gær og í dag hefur svo Ágústa vinkona hennar Auðar verið mikið hér. Hún er í heimsókn hjá pabba sínum þessa helgi.
Við erum búin að vera mikið úti og fundum ágætis brekku hérna inni í skógi sem þau gátu rennt sér á. Alveg nógu bratta fyrir svona byrjendur. Ágúst er aðeins kjarkaðri en systir hans, en þau eru nú hvorugt sérstaklega kjörkuð. Það er stundum ágætt, þá slasast þau ekki eins oft.
Hundurinn hefur verið mjög sáttur við snjóinn. Honum finnst hann sennilega vera kominn heim. Hann saknar örugglega stundum íslenska veðurfarsins. Það er mjög gott að hafa smá snjó, þá verður bjartara. Bara að hann fari ekki að blása út um allt. EN það gerist mjög sjaldan hér.
Ágúst er orðinn sáttari í leikskólanum. Það er ekki minna en 3 mismunandu sjúkdómar í gangi núna. Hlaupabóla, njálgur og eitthvað sem við þekkjum ekki. En örugglega eitthvað bráðsmitandi. Hins vegar er langt síðan við höfum haft lús. Ekki að við söknum þess. En þetta gengur alltaf yfir nokkrum sinnum á ári. Kannski þola þær ekki kuldann. MOldvarpan í garðinum hefur allavega hægt eitthvað á sér.
Ágúst heimtaði einn daginn að standa þegar hann pissar. Hingað til hefur hann setið. Frúin var nú ekki mjög hrifin af því hún hefur reynslu af því að karlmenn eigi erfitt með að stjórna þessu tóli og það vill slettast út um allt. En hann er voða montinn af þessu og ómögulegt að eyðileggja það fyrir honum. Kannski er kostur að hann læri þetta svona fljótt, þá eru kannski meiri líkur hann hitti á réttan stað.
Það gengur eitthvað illa að finna þorrablót að komast á. Það eru nókkur hérna á Jótlandi, en frekar langt í burtu. Það er nú alltaf stemning að fara á þorrablót, en alveg spurning um hversu langt maður nennir að keyra eftir því.
Jæja það er víst ekki mikið meira títt héðan úr sveitinni. Eitthvað rólegt þessa dagana. Eða kannski bara allt svo hversdagslegt, eitthvað sem maður nennir ekki að skrifa um.
Kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.