Bleyta

Kæru bloggvinir

þá er búið að skifta um veður einu sinni enn. Það hefur verið hiti í þessari viku, en af því að það er svo mikill raki, þá er ekkert sérstaklega hlýtt. Það rignir töluvert og í dag hefur verið éljagangur. VIð prófum sitt lítið af hverju. En það er sennilega ekki við öðru að búast á þessum árstíma.

Fjölskyldan hefur verið ansi kvefuð. Börnin hósta frekar mikið og við gamla settið erum eitthvað að smitast af þessu. Danir eru alveg óskaplega viðkvæmir fyrir hori og þola alls ekki að maður sjúgi upp í nefið á almannafæri. Þeim finnst skárra að maður snýti sér fyrir framan alla, eins og það sé eitthvað skárra.

Frúin fór á námskeið á fimmtudag og föstudag. Það var langt héðan, svo hún varð að gista. Ágúst fékk að gista hjá Óla og Ástu og Auður svaf hjá pabba sínum. Það var víst ágætt fyrir þau að fá smá pásu fra mömmu sinni. Hún gerir þau víst svo óþekk. Það er oft auðveldara að hafa þau sitt í hvoru lagi. Auður er ansi ráðrík og bróðir hennar nennir ekki alltaf að hlusta á það. Námskeiðið var mjög gott og alltaf gaman að sjá eitthvað nýtt. Það var einn vinnufélagi með, svo frúin þurfti ekki að tala við ókunnugt fólk. Það þótti henni nú ekki svo slæmt. Hún er ekki sú félagslyndasta.

Nú stefnir svo bara í venjulega vinnuviku. Bíllinn þarf að fara á verkstæði á morgun og láta kíkja á bremsurnar. Við erum nýbúin að borga síðustu viðgerð.Það er alltaf eitthvað.

Í gær renndum við til Ribe að kaupa vaxdúk á eldhúsborðið. Við fundum í leiðinni bráðskemmtilegan leikvöll. Hann er byggður í víkingastíl, enda er Ribe víkingabær. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og börnunum fannst þetta mjög spennandi. Það er nú það sem skiptir mestu máli. Ágúst vildi svo fara aftur út að leika seinnipartinn í gær svo frúin lét sig hafa það að fara aftur út. Auður er að verða svo mikil gelgja að hún er ekki eins viljug að vera úti. Enda alveg fínt að hafa þau sitt í hvoru lagi einstöku sinnum.

Bóndinn fór á fyrirlestur í vikunni með einhverjum dösnkum eldfjallafræðingi sem hefur mikinn áhuga á Heklu og er búin að stúdera það eitthvað voða mikið. Þetta var víst mjög fínt og hann visse alveg helling. Það hlýtur nú að vera skrýtið að vera eldfjallafræðingur í landi þar sem eru engin fjöll og alls ekki eldfjöll.En hann virtist mikill áhugamaður um þetta og það var víst hellingur af fólki.

Næst á dagskrá er að fara í kaffi til Evu aukaömmu. Hún var ekki heima í morgun þegar við reyndum að hitta á hana. Hún hafði farið í messu. En hún lofaði að vera heima núna, svo við látum á það reyna.

Jæja héðan er víst ekki mikið meira að frétta.

kveðja

Tisetgengið

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl

Hér er bara kuldi og snjór en sem betur fer hefur ekki skafið mikið þ.a. færðin er nú allt í lagi. Hér hefur allt sinn vanagang, við bara vinnum og Bragi málar og ég hekla. Svo höfum við verið dugleg að fara á tónleika, erum að fara á 2 í næstu viku. Slepptum stóra þorrablótinu um síðustu helgi því við vorum búin að kaupa miða á Eyjatónleika í Hörpu. Þannig að við ætlum að hafa míniþorrablót í kvöld og strákarnir koma í mat. Góðar kveðjur úr sveitinni.

Gunna og Bragi     tongue-out

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 31.1.2016 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband