Öskudagshasar

Kæru bloggvinir

hér er ýmisskonar veður þessa dagana. Það er frekar hlýtt miðað við árstíma, en oft rok eða rigning. Snjóinn höfum við ekkert séð síðan þarna um daginn. Snjóþoturnar bíða samt hérna á bak við. Maður veit ekki nema það komi eitthvað smávegis föl aftur.

Það er búið að vera nóg að gera í öskudagsundirbúningi. Ágúst var á öskudagsskemmtun á föstudaginn í leikskólanum. Hann vaknaði með þvílíkan hálsríg að hann gat ekki rétt almennilega úr hausnum. En hann vildi ekki heyra á það minnst að vera heima. Hann fékk að kaupa sér löggubúning og var alveg svakalegur töffari. Hann er nú eitthvað að lagast í hálsinum, en samt ekki alveg góður. VIð höfum verið að reyna að láta hann sitja með hitapúða, en hann hefur ekki alveg þolinmæði í það.

Auði langaði að vera bílaviðgerðarstelpa, sem hún horfir oft á í sjónvarpinu, en það var svo mikið vesen að skaffa galla fyrir hana að hún ákvað að vera bara norn. Hún átti galla í það. Hún slær köttinn úr tunnunni á morgun í skólanum. Hún er ógurlega spennt og var mjög svekkt yfir því að Ágúst fékk að fara í búning á föstudaginn. Svo er öskudagsskemmtun hér í Tiset á sunnudaginn. Við ættum því að vera búin að fá nóg eftir það. Krökkunum finnst þetta rosalega spennandi. Þau hafa mikið pælt í því hvort við ætlum ekki að vera í búning líka, en það hefur nú víst lítið farið fyrir því að við klæddum okkur upp.

Bíllinn fór á verkstæði á mánudaginn og fékk skipt um bremsur. Eins gott að hafa það í lagi. Svo var vespan hjá bóndanum eitthvað illa haldinn eftir að hafa staðið í nokkurn tíma hreyfingarlaus. Hún var því frögtuð á verkstæðið á föstudaginn. VOnandi að það sé ekkert alvarlegt, kannski þarf bara eitthvað að smyrja. Það er allavega mikill munur að hafa annað faratæki þegar maður býr utan almenningssamgangna.

Í dag var ráðist í að baka öskudagsbollur. Bæði vatnsdeigsbollur og danskar bollur. Krökkunum þótti mjög spennandi að fá að skreyta þessar dönsku og þær brögðuðust lygilega vel. Kannski af því við bjuggumst ekki við neinu. Þeir baka oftast gerbollur, stundum með fyllingu inn í og glassúr ofan á.Það er ágætt að prófa eitthvað annað en maður er vanur. Það er ágætt að það er bara bolludagur einu sinni á ári. Þetta er rosalega gott, en maður getur ekki borðað mikið.
Svo er illt í efni með saltkjötið. Við höfum ekki náð að salta, en ætlum að reyna að ráðast í það næstu daga svo maður nái að gera baunasúpu. Það verður að hafa það, þó það sé ekki á sjálfan sprengidaginn. Þeir halda bara upp á bolludag. En borða baunasúpu á öllum mögulegum tímum.

Jæja ætli sé ekki ráð að fara að slaka á fyrir næstu vinnuviku. Vikan eftir það, er svo vetrarfrí í skólunum. Frúin ætlar að vinna  daga og taka svo frí og börnin gera það sama. Maður verður svo að reyna að gera eitthvað skemmtilegt þessa frídaga. Svo er stutt í páskafrí, svo maður er ekkert að ofreyna sig í vinnunni.

Öskudagskveðja

TIsetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband