Áframhaldandi öskudagshátíðarhöld


Kæru bloggvinir

Það er eitthvað aðeins að byrja að snjóa hér, en við vonum það verði bara eitthvað smáræði. Óttalegt vesen ef það snjóar mjög mikið.

Það er öskudagshátíð hérna í TIset í dag. Ætli maður reyni ekki að mæta þar. Börnin eru allavega ekki tilbúin að sleppa því. Svo ætti öskudagspartýin að vera búin þetta árið.
Í næstu viku er svo vetrarfrí í skólanum. Auður fer í skólaskjól á morgun. Það eru nú ekki mörg börn, svo þau verða heima hjá fóstrunni. Það á að fara með þau í sund, svo það verður nú eitthvað spennandi.

Annars er nú allt í sama farinu hér. Börnin eru stundum alveg ótrúlega þreytt á hvort öðru. Það er eins og þau þurfi alltaf að vera að leika með sama dótið. Við erum alltaf að reyna að skipta dótinu á milli þeirra. En það virðist ekkert hjálpa. Ef Ágúst er með eitthvað dót, þá er eins og Auður þurfi alltaf að fá það. Þó hún hafi ekki haft neinn áhuga á því áður en Ágúst fór að leika með það. En það er nú sennilega mjög algengt milli systkina.
Í gær vorum við allan daginn í stórum íþróttasal, þar sem var ýmislegt verið að gea. Auður og bóndinn bökuðu saman kökur og við Ágúst vorum eitthvað að hoppa. Svo voru lesnar og leiknar sögur úr biblíunni. Auður sat og hlustaði af mikilli athygli og bauð sig svo fram til að fara að hjálpa konunni sem var að segja sögurnar. Það er ótrúlega gaman að sjá hversu mikið hún hefur þroskast við að fara í skóla. Hún er mikið frakkari og framfærnari. Hún talar við fleiri krakka og er almennt meira til í að prófa nýja hluti. Ágúst er allt önnur týpa. Hann reifst og skammaðist í miklu eldri krökkum í gær, honum er alveg sama. Það er fyndið að það sé svona mikill munur á þeim.
Það voru ansi þreytt börn sem komu heim hér seinnipartinn í gær. Þau hafa líka verið ansi þreytt hér í morgun. Við drifum okkur út að leika og fórum svo í heimsókn til Evu gömlu.

Það er ekki alveg búið að plana frídagana í næstu viku, en það hlýtur að finnast eitthvað sem við getum gert. Það er lengi búið að standa til að fara í bíó með börnin og það er kannski kominn tímí á það. Svo reynir maður kannski að heimsækja Óla og Guðný í Odense. Það vinnst ekki mikill tími til þess, svona dags daglega.

Síðasta föstudag hringdi eitthvað fólk allt í einu sem vildi kaupa veggflísar sem við erum búin að hafa til sölu í hálft ár. Þau vildu keyra alla leið frá Fjóni, ca. 1 1/2 tíma til að kaupa 15 fermetra af flísum. Það er svolítið fyndið að þau reyndu ekkert að prútta um verðið, en það gera allir hér á Suður-Jótlandi. Þetta er víst sérstaklega slæmt hérna á þessu svæði. En við vorum bara ánægð að losna við þetta og fá smá aur fyrir. Það er þá hægt að gera eitthvað skemmtilegt í fríinu.

Jæja ætli sé ekki best að fara að gera klárt fyrir öskudagspartýið.

Kveðja
TIsetgengið
Sendt fra Mail til Windows 10


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl

Öskudagurinn er gengin yfir hér á Fróni, það er nú yfirleitt bara einn dagur en þá er líka líf og fjör. Ég mætti sem Batman í skólann en það voru örugglega 10 - 20 aðrir Batmanar líka en reyndar aðeins minni. Starfsfólkið og nemendur eru alltaf í búningum og svo er farið á 8 mismunandi stöðvar í skólanum og gert eitthvað skemmtilegt. Ég var t.d. á vöfflustöð þar sem 200 nemendur(ca. 25 í einu) komu og bökuðu vöfflu og borðuðu. Það er eitthvað rólegra hjá Braga á þessum degi, held að hann sé bara hefðbundin í FS. Annars er allt gott að frétta héðan blíðskapar veður, sól og logn en við erum bara að þrífa í þessu góða veðri. Ætla svo að horfa á dönsku og sænsku Eurovision á eftir ef tími gefst til. kiss

Kær kveðja frá öllum,

Gunna og Bragi

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 14.2.2016 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband