Vegavinnu lokið

Kæru bloggvinir

Við höfum heyrt í fréttum frá Íslandi í dag að það sé vonskuveður og snjókoma á Íslandi. Við getum því ekki mikið kvartað. Okkur finnst nú samt vorið eitthvað vera seint á ferðinni. Þegar Auður byrjaði í skólaundirbúningnum í fyrra, á sama tíma, var allavega hlýrra í veðri. En þetta hlýtur að koma.

Við fórum í morgun og sáum kúnnum hleypt út, hérna rétt hjá. Þær voru mjög ánægðar með að komast út. Það er alltaf gaman að fara með börnunum og sýna þeim svona sveitalíf. Þá komast þau allavega að því hvernig mjólkin og allt hitt verður til. Það er líka mikilvægt að þau séu ekki hrædd við hinar og þessar skepnur. Þrátt fyrir hálfgerðan hráslaga fórum við aðeins út í gær og komum niður nokkrum hindberjaplöntum í viðbót og rökuðum til í hinum beðunum. Það fer að koma að því að slá garðinn. Það hefur rignt aðeins í vikunni og hlýnað aðeins, svo gróðurinn er eitthvað að taka við sér.

Þeir kláruðu loksins að vinna í veginum hérna fyrir framan í vikunni. Það er reyndar búið að grafa risa holu hérna við hliðina á innkeyrslunni okkar. En það er allavega hægt að koma bílnum í innkeyrsluna og við komumst loksins á ruslahaugana í morgun. Það var orðið þörf á því.

Það var vinakvöldverður á föstudaginn. Bóndinn eldaði matinn og það vakti mikla lukku. VIð fórum allavega ekki heim með mikla afganga. Það er svo sem ágætt. Næstu viku eru svo bara fjórir vinnudagar. Það er stóri bænadagur á föstudaginn og við græðum því einn auka frídag.

Við erum væntanleg á klakann í byrjun maí. Við verðum í 10 daga. Við þurfum að tæma húsið hjá ömmu Auði og ef einhver hefur laust geymslupláss fyrir nokkur húsgögn, þá viljum við endilega heyra um það. Það er ansi dýrt að leigja sér svoleiðis. Það er líka eitt stykki píanó, sem vantar heimili, þangað til við flytjum heim aftur. Hvenær sem það nú verður. Það er ómögulegt að segja hvað tekur langan tíma að losna við húsið hérna. Bankarnir eru tregir að lána fólki pening til að kaupa sér hús hérna úti á landsbyggðinni. Við vonum að veðrið verði orðið eitthvað betra þegar við komum heim.

Jæja best að fara að gæða sér á pönnukökunum sem bóndinn var að baka. Börnin eru orðin eitthvað óþolinmóð.

Kveðja frá tisetgenginu

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ, hæ

Gaman að heyra að þið séuð að koma til landsins. tongue-out  Við hljótum nú að hittast eitthvað þá. laughing  Veðrið var aldrei neitt slæmt hér, smárok kannski en annars allt í lagi. En það var víst ansi slæmt fyrir vestan og norðan. Hér hefur allt sinn vanagang og allir við ágæta heilsu.

Nú getur maður sagt, sjáumst bráðum. smile   Kveðja, Gunna og Bragi

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 18.4.2016 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband