1.5.2016 | 15:41
Sól og blíða
Kæru bloggvinir
Hér hefur verið rosa blíða í dag. Svo nú vonum við að góða veðrið sé að koma. Það væri auðvitað týpískt að það yrði svaka blíða hérna meðan við erum á Íslandi. Það er allavega vonandi að það fari að verða meira stöðugt veður.
Börnin hafa verið úti í næstum allan dag. Við erum búin að hjálpa Evu gömlu að setja net yfir jarðarberin, svo fuglarnir borði nú ekki öll berin. Gróðurinn ætti að fara að taka við sér þegar það hlýnar. En það er ennþá frost á nóttinni.
Annars er allt við það sama hér. Við fórum í 75 ára afmæli á föstudaginn. Það var mjög fínt. Mest allur bærinn, þar sem Auður er í skóla var á staðnum. Maðurinn sem átti afmæli býr í þeim bæ og það þekkja allir alla í þessum litla bæ.
Það er verið að grafa í sundur allar götur í bænum, það er frekar ógirnilegt að hafa allt í bleytu og drullu hér fyrir utan. En kosturinn er að það er engin umferð um götuna hérna.
Auður fór með skólanum í heimsókn hjá skátunum í vikunni og vildi endilega prófa að vera með. Frúin fór því með henni á föstudagskvöldið og stóð úti í skítakulda og blés sápukúlur og söng bálsöngva. Auður vill endilega prófa að vera með, svo ætli maður verði ekki að reyna að leyfa henni það. Sundið er búið, svo hún hefur ekki svo mikið við að vera eftir skóla. Svo er nú mjög gott fyrir börnin að vera úti og leika sér. Annars eru okkar börn nú mjög dugleg við það. Ágúst er sérstaklega duglegur að dunda sér úti, líka þegar hann er bara einn.
Í gær fórum við til Haderslev og Auður fékk að heimsækja Ágústu, bestu vinkonu sína, sem er flutt þangað. Við fórum á meðan og versluðum smávegis. Það voru hermenn úti að labba með allan útbúnað og byssur líka. Ágústi stóð ekki á sama, en fékkst til að láta taka mynd af sér með einum þeirra og halda á stórri byssu.
Svo er bara að fara að pakka niður fyrir Íslandsferðina, það er nú ekki langt í hana. Þetta líður svo hratt að við verðum komin og farin aftur, áður en við er litið.
Jæja best að fara að leggja börnin í bleyti og þrífa af þeim skítinn.
Kveðja
Tisetgengið
Athugasemdir
Hæ,hæ
Hér er búið að vera ágætisveður undanfarið, alla vega hér á suðvesturhorninu. Bragi er búinn í kennslunni en ég á mánuð eftir. Hann þarf reyndar að sitja yfir nokkrum prófum en það eru bara 3-4 dagar. Annars tölum við saman þegar þið komið til landsins.
Sólarkveðjur
Gunna og Bragi
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 1.5.2016 kl. 18:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.