Strandferð

Kæru bloggvinir

þá er víst aftur komið að eins og einni færslu héðan úr stórborginni. Það hefur verið ágætisveður síðustu daga, en ekkert ofurgott samt. Við drifum okkur til Rømø í dag. Það er nauðsynlegt að koma þar allavega einu sinni á sumrin. Ekki til að liggja í sólbaði, enda ekki veður til þess, en bara upp á stemninguna og at komast nálægt sjónum. Börnunum finnst líka óskaplega gaman að safna skeljum og finna krabba og svoleiðis. Þau voru líka mjög dugleg að safna rusli, það var nóg af því.

Auður fór í heimsókn til Arndísar vinkonu sinnar á miðvikudaginn og var ekki skilað aftur fyrr en í gær. Ágúst var hálfvængbrotinn og fór alveg á yfirsnúning í gær þegar hún kom heim. Hann byrjaði í leikskólanum aftur á fimmtudaginn og var mjög sáttur við það. Hann var mjög ánægður með að hitta félaga sína aftur. Hann er oft að spila sig eitthvað voða kaldan karl, en svo þegar á hólminn er kominn, þá er hann með óskaplega lítið hjarta. Hann er að fara á aðra deild í leikskólanum. Það er nú alltaf viss áfangi. Hann fær nýja fóstru, við þekkjum hana ekki, en vonum hún sé almennileg. Auður fer svo aftur í útivist á miðvikudaginn. Hún fer í vist á sveitabæ í 3 daga. Á síðasta ári var svo gaman að hún grét úr sér augun yfir að þurfa að koma heim. Vonandi verður hún jafn ánægð í ár. Svo fer hún að byrja aftur í skólanum. Hún er byrjuð að æfa sig að skrifa. Hún tekur þetta mjög alvarlega. Frúin sagði hún mætti nú alveg taka sumarfrí, en hún´hélt nú ekki. Í gærkvöldi fórum við til Ástu og Óla og grilluðum og hlustuðum á íslenska tónlist, bara svona til að halda smá upp á verslunarmannahátíðina. Ágúst fór á undan okkur hinum og svo þegar við náðum honum, var einhver maður búin að taka hann að sér af því hann hélt hann væri að stinga af að heiman. Maður er nú ekki vanur því að fólk skipti sér af, en auðvitað mjög gott að fólk pæli í, hvað svona lítill strákur sé að gera einn úti að labba.

Frúin byrjaði að vinna aftur á fimmtudaginn og það var mjög fínt að hafa bara svona stutta vinnuviku. Nú er svo alvaran í næstu viku, þá verður maður víst að mæta í vinnuna alla 5 daga. En ætli það hafist ekki. Jæja best að fara að grilla og kíkja á börnin sem eru algjörlega búin á því eftir strandtúrinn. kveðja Gramgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ, hæ

Gott að allt gengur vel í "stórborginni" og allt að komast í fastar skorður aftur. Hér er enn verið að taka upp úr kössum, þeir virðast vera endalausir. Svo var farið í það um helgina að byrja að mála slotið að utan. Reyndar var bara byrjað á kassanum. Nágrannarnir sem eru bara "krakkar" finnst manni, reyndar er strákurinn besti vinur Einars, ætluðu að fara að mála sín megin en þar sem þetta er parhús var ekki hægt annað en að mála okkar megin líka. Það tók smá tíma að koma sér saman um lit en það tókst. Síðan var byrjað í gær og haldið áfram í dag en svo kláraðist málningin og ekkert hægt að gera meir. Annars erum við bara sátt með skiptin þótt ýmislegt hafi þurft að gera.

Kær kveðja úr heiðinni.

Gunna og Bragi

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 31.7.2016 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband