25.9.2016 | 16:55
Haustsól
Kæru bloggvinir
við höfum verið mjög heppin með veðrið síðasta mánuðinn. Það er ennþá sól og frekar heitt, svona miðað við árstíma. En það er samt byrjaðir að koma dagar með grámygluveðri, svo við eigum nú von á að það fari að hausta fljótlega. Þetta skiptir sennilega bara allt í einu, eins og það skipti frá vetri í vor. Við njótum sólarinnar meðan hún er hér. Við fórum með börnin í hjólatúr í morgun. Auður er ennþá óörugg að hjóla í kringum bíla, þau eru bæði með svo mikinn athyglisbrest að þau eiga erfitt með að einbeita sér að því sem þau eiga að gera.
Í gær fórum við í heimsókn til Óla og Guðnýjar. Við fórum á einhvern risa flóamarkað. Það var ótrúlega mikið af alls konar drasli til sölu. Við keyptum nú ekki neitt, en svo var tívolí líka og börnin fengu að prófa nokkur tæki. Í dag var svo farið í hina árlegu sirkusferð. Bankinn sem krakkarnir eiga reikning í, bíður börnunum í sirkus, einu sinni á sumrin. Það er alltaf gaman að fara í sirkus. Maður er hálfstressaður yfir þessum kúnstum sem er verið að gera hátt uppi í loftinu. Það voru ekki mjög mörg dýr með í ár. Það er mjög mismunandi, hversu mikið er af því. Krökkunum finnst það nú sennilega skemmtilegast. Frúnni hefur alltaf þótt mjög áhugavert af hverju það þarf alltaf að vera með hálfberar stelpur að glenna sig á sviðinu. Kannski er það svo að pabbarnir vilji koma með.
Annars hefur nú allt verið í föstum skorðum í vikunni. Börnin erum komin á fullt skrið í leikskóla og skóla og frúin í vinnunni. Það er alltaf nóg að gera. Auði fer helling fram að lesa, en er nú bara í léttum bókum ennþá. Þetta kemur smá saman og svo er hún að læra ensku. Það er ótrúlega fyndið hvað krakkar eru fljótir að tileinka sér ný tungumál.
Það hefur verið að ganga einhver magapest. Auður gubbaði á mánudaginn og svo ekki meir. Þá tók bóndinn við og svo frúin. Ágúst hefur sloppið hingað til. FRúin varð að taka sér frí úr vinnunni. Það hefur nú ekki gerst nema tvisvar sinnum á þeim sex árum sem hún hefur verið í þessari vinnu. Það telst nú sennilega nokkuð gott.
En jæja best að fara að slaka á fyrir svefninn.
Kveðja
Gramgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.