Vika 6

Kæru bloggvinir

þá er vonandi að fara að sjá fyrir endann á þessu fótaveseni á frúnni. Hún er orðin verulega þreytt á að hoppa um og allt er eitthvað svo snúið. Það er búið að boða hana í skoðun eftir 1 og hálfa viku og þá er vonandi að maður fái grænt ljós á að fara að nota löppina eitthvað meira. Yfirmaðurinn í vinnunni er farinn að vera mjög óþolinmóð að fá frúnna til baka. Hún var tilbúin að borga leigubíl frá lestarstöðinni í vinnuna. En svo kom í ljós að sveitarfélagið var búin að spara svo mikið að þeir geta ekki borgað fyrir svoleiðis. Það má segja að það borgi sig ekki alltaf að spara.

Annars hefur vikan verið heldur í viðburðarríkari kantinum. Frúin sótti um nokkur störf á Íslandi og fékk eitt af þeim. Hún var búin að fá tvö bréf um að hún hefði ekki verið valin og svo kom það síðasta sem hún fékk, og það sem hana langaði mest að fá. Það er ´vist ekki hægt annað en að vera ánægður með það. Það þurfti aldeilis að fara á stúfana og reyna að fara að undirbúa þetta allt saman. Það sem virðist verða stærsti höfuðverkurinn er að finna húsnæði á Suðurnesjum. Það er greinilega ekki auðhlaupið að því. Við vorum svo grunlaus að við héldum það yrði nú minnsta málið.

VIð erum ekki enn búin að segja krökkunum frá þessu. Auður á eftir að verða svo spennt að hún á ekki eftir að geta beðið. Hún á líka eftir að sakna skólans mikið. Það er vikufrí núna og hún var voða leið í gær yfir að hún sæi ekki kennarann sinn í heila viku. En það vegur á móti að hún fær að flytja í nágrenni við systur sína, sem hún saknar óskaplega mikið. Við erum mjög spennt, en þetta er auðvitað líka frekar stressandi.

Við fórum í vinakvöldverð á föstudaginn. Þar stóð upp kolbikasvartur maður frá Kongó, sem hefur verið í Danmörku í 7 ár, en flúði einn frá Kongó fyrir 7 árum. Han á konu og 6 börn. Eða átti. Fyrir 5 árum síðan komst hann loks í samband við konuna, sem hann skildi eftir. En 4 af börnunum hans eru horfin. Einhver af þeim hafa hugsanlega verið tekin og gerð að barnahermönnum. Hann stóð þarna og sagði frá þessu öllu, en gat samt sem áður séð ýmislegt jákvætt í lífinu. Hann er mjög trúaður og það er sennilega það sem hefur haldið honum gangandi. Hann fékk líka samband við danska fjölskyldu, sem hefur greinilega hjálpað honum mikið. Það var mjög skrýtið að heyra hann segja að þegar hann kom, vissi hann til dæmis ekkert hvernig ætti að elda á eldavél, eða hita upp húsið. Í Kongó er dimmt á nóttinni og bjart á daginn, svo maður þarf ekki úr. Hér er dimmt á daginn og bjart á nóttinni. Þetta var náttúrlega alveg fáránlegt. Hann kunni ekki á klukku. Þurfti ekki á því að halda í Kongó. Manni finnst svo margt alveg sjálfsagt sem er alveg framandi fyrir þetta fólk.

Það er ennþá sama grámygluveðrið og kuldi. Þeir eru eitthvað að lofa hlýjari vindum næstu dagana. Vonandi að það gangi eftir.

Jæja best að fara að reyna að stjórna mannskapnum.

kveðja

Gramgengið 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ, hæ

Reyndu nú að hafa stjórn á kallinum svo hann snúist í kringum þig.kiss  Gaman að heyra nýju fréttirnar um flutninginn vonandi gengur það allt vel fyrir sig og þið fáið húsnæði. Við verðum með augu og eyru opin. Hér er alltaf eins og á sumardegi, næstum því slegið hitamet á Austfjörðunum en hér hefur verið 4 - 8 stiga hiti undanfarið en það á víst eitthvað að fara að kólna í næstu viku. undecided

"Sumarkveðjur"

Gunna og Bragi

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 12.2.2017 kl. 14:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband