19.2.2017 | 12:37
Vetrarfrí
Kæru bloggvinir
þá er vika 7 liðin. VOnandi á frúin bara eftir að vera í spelku í eina viku í viðbót. Hún fer til læknis á fimmtudaginn og vonast eftir að fá leyfi til að fara að tylla eitthvað í fótinn. Það myndi verða töluverður léttir. Það er orðið verulega þreytandi að hoppa um allt á einni löpp. Maður er búinn að fá innsýn í hvernig er að vera í hjólastól og hversu erfitt er að komast um. Það virðist ekki oft vera spáð í hvernig fatlað fólk eigi að komast inn í búðir og svoleiðis. Klósett sem eru merkt með fatlaðamerki eru nú heldur ekki alltaf þau bestu. Kannski maður fari að berjast fyrir betra aðgengi.
Ágúst var í leikskólanum frá mánudegi til miðvikudags. Hann fór í annan leikskóla en hann er vanur og fannst alveg rosalega gaman. Hann var eiginlega bara fúll yfir því að fá ekki að fara á fimmtudeginum líka. Þau áttu að gera pizzu. Það eru færri börn þegar það eru frí í skólanum og sennilega hægt að gera aðra hluti en þegar það er bara venjulegir dagar. Arndís fékk að heimsækja Auði og gista í tvær nætur. Þær skemmtu sér mjög vel og voru rosalega duglegar að leika saman. Auður var voða leið yfir að hún fór og grét hástöfum. En það jafnaði sig nú sem betur fer fljótt. Þau feðgin fóru svo í sund á föstudeginum og Ágúst fékk einn vin sinn frá leikskólanum í heimsókn. Í gær var svo brugðið undir sig fæti og keyrt til KOlding. Það var ákveðið að bjóða börnunum út að borða. Ágúst hefur eiginlega aldrei prófað svoleiðis, svo hann var mjög upptekinn af því sem var að gerast í kringum hann og mátti eiginlega ekki vera að því að borða. þeim fannst þetta gríðarleg upplifun. Foreldrunum líka, þar til þau fengu reikninginn. Drykkjarvörurnar kostuðu næstum meira en maturinn. Það er á svona dögum sem maður ætti að drekka áfengi. Það er mikið ódýrara en gos. Það er gott maður fer ekki svo oft út að borða.
Þegar heim var komið horfðum við á bíómynd og borðuðum popp og nammi. Það kostar hálfan handlegg að fara í bíó, svo það var ákveðið að taka bara heimabíó í staðinn. Held að þeim hafi bara fundist það mjög gott.
Í dag var svo ráðist í að taka til í herbergjunum þeirra. Það var hent töluvert af rusli og svo þarf að tékka hvort við getum selt eitthvað smá dót. Þau eiga nú ekki mikið, en það sem þau eiga, er alltaf út um allt. Þeim finnst rosalega gaman þegar maður er búinn að taka til og hafa verið inni í herbergi að leika sér, síðan við tókum til. Það er svo annað mál, hvort þeim tekst að halda því í lagi. Það er mjög ólíklegt. Þau taka stundum góða spretti og leika saman, en stundum ofbýður Ágústi stjórnsemi systur sinnar og gefst upp.
Frúin er að vonast eftir að geta farið að vinna eitthvað eftir svona 2 vikur. Þetta er orðið alveg ágætt, en það tekur tíma að komast í gang aftur. Yfirmaðurinn (sem er kona) er víst alveg að ná því að maður jafnar sig ekki alveg á núll komma fimm. Það er orðið svo stíf veikindapólitík í vinnunni, maður þarf nánast að vera dauður til að fá að vera heima. Þeir reka fólk í vinnu, ef það er bara með brotinn fót eða handlegg. Þetta er alveg rosalega manneskjulegt eða þannig og þeir eiga ekkert eftir að fá þetta í bakið.
Það er verið að vinna á fullu í að finna íbúð. Það skýrist vonandi fljótlega hvort okkur verður eitthvað ágengt í þeim málum. Það er lítið annað hægt að gera, fyrr en maður er kominn með þak yfir höfuðið.
Jæja best að fara að taka smá sunnudagsafslöppun
kveðja
Gramgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.