12.3.2017 | 13:07
Vor í lofti
Kæru bloggvinir
hér er eitthvað smá vor í loftinu. Börnin heimtuðu að fara út að hjóla í gær og var drifið í því. Það var eins og kúnum væri hleypt út.
Á föstudaginn fórum við í vinakvöldverð. Þar var mikill fjöldi fólks. Mikið af flóttamönnum frá Sýrlandi. Þeir eru nú ýmist kristnir eða múslimar. En okkur kemur nú öllum ágætlega samaan fyrir því. Börnin eru mjög dugleg að leika sér saman. Það skiptir engu máli, hvernig maður er á litinn þegar maður er barn. Fordómarnir koma ekki fyrr en seinna.
Frúin fór í vinnuna á föstudaginn, í fyrsta skipti síðan eftir brotið. Það voru heilmikil viðbrigði. Mesta málið er að komast í vinnuna. Það þarf að semja við vinnufélagana að sækja hana á lestarstöðina. Allavega þar til hún er farin að geta labbað meira án verkja. Það er hálfgert neyðarástand í teyminu sem frúin er í. VIð erum bara tvær og hin er að hætta eftir 1 1/2 viku. Yfirmaðurinn er frekar stressuð yfir þessu. Hún er vön að hafa annan sálfræðing undir sér, sem sér um að vinna vinnuna hennar. En sú er í veikindaleyfi. Hún var því ekki upp á marga fiska þegar frúin mætti aftur. En hún finnur kannski annan sálfræðing til að vinna vinnuna sína.
Það er smátt og smátt verið að losa sig við hluti sem eru ekki notaðir meira. Börnin eiga nánast ekkert eftir af dóti og var því farið í leiðangur í dag að kaupa eitthvað smá í sárabætur. Það þarf að koma útidótinu frá sér líka. Það ætti nú að vera mögulegt.
Það er búið að fá tilboð í gám og verið að vinna í að finna dagsetningu til að fá hann og eitthvað fólk til að hjálpa. Það er alveg glatað að þegar við þyrftum að fá hann, þá er helgidagur hér, föstudagurin 12. maí er stóri bænadagur og frídagur hjá mörgum héfyrsr.
Við erum sennilega búin að fá tvo bændur til að hjálpa við að taka dótið hér niður af svölunum og hífa upp í gáminn. Það léttir þetta nú heilmikið. Við fórum í spagettýmessu á fimmtudaginn og fengum einn bónda í lið með okkur. VIð höfum ekki prófað svona áður. Það er farið í kirkju fyrst og presturinn var klæddur upp sem Jóhannes Skírari, með hárkollu og í gömlum fötum. Síðan var farið í samkomuhúsið og borðað spagettý. Börnunum þótti þetta mjög skemmtilegt, og þá er árangrinum náð. VIð förum greinilega ekki oft í messu, því Ágúst var alltaf að bíða eftir jólasveininum. Presturinn bregður sér stundum í gervi jólasveins líka.
Annars er nú lítið meira að frétta héðan úr sveitinni. VIð vonum að vorið haldi áfram að koma, um að njóta þess, áður en maður kemur heim.
Kveðja frá Baunalandi
Gramgengið
Athugasemdir
Heil og sæl
Sé að allt er á fullu að undirbúa flutninginn, eru þið búin að fá húsnæði. Hér heldur bara áfram að vera fínasta veður, kom bara þessi mikla snjókoma á einni nóttu og síðan ekki söguna meir. Núna er 7 stiga hiti og næstum logn. Bragi er búin að vera með einhverja pest en ég er að tapa mér yfir Eurovision. Fór á 2 undankeppnir í Háskólabíói og var svo á úrslitunum í gær í Höllinni með Steinunni. Svaka fjör og læti, Mons frá Svíþjóð sem vann 2015 og Alexander Rybak frá Noregi sem vann 2009 sungu sín lög og gerðu allt vitlaust. Ég fór síðan heim en Steinunn fór á blaðamannafund með Svölu sem vann og svo í eftirpartí með öllu heila liðinu.
Vonandi gengur allt vel hjá ykkur og við sjáumst í maí.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 12.3.2017 kl. 17:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.