23.4.2017 | 17:43
Allt í gangi
Kæru bloggvinir
hér hefur ekki mikið bólað á vorinu. Það liggur við að maður þurfi að draga fram úlpuna aftur. Við fórum og sáum kúnum hleypt út. Það kom haglél þegar þær komu út, en það gekk samt fljótt yfir. Það var samt alveg fimbulkuldi. Við settum bílinn á sölu fyrir nokkrum dögum og það hafði ekki verið neinn áhugi fyrir honum, en svo hringdi maður í morgun og vildi endilega kíkja á hann. Það varð því að taka sig til og þrífa hann og gera kláran. Hann kom svo og keyrði burt á gripnum. Auður fór að gráta þegar hún sá að bíllinn var keyrður í burtu. Þetta tók eitthvað voðalega á hana. Það er greinilega mjög erfitt að losna við notaða bíla þessa dagana og lítið hægt að fá fyrir þá. Þessir bílar eru venjulega mjög vinsælir og aðrir bílar sem við höfum átt hafa nánast verið rifnir úr höndunum á okkur. En allavega er hann farinn og við vorum búin að semja við vini okkar að fá lánaðan þeirra bíl í smá tíma, en svo gekk það ekki upp, svo nú er bóndinn í tómum vandræðum að komast í vinnuna á morgun. Það er nánast vonlaust að komast í vinnuna án bíls. Það eru 10 km fyrir hann í vinnuna, en það tekur 2 tíma að fara með almenningssamgöngum. Við vonum að það finnist einhver lausn á þessu.
Í gær var Auður mest allan daginn með skátunum eitthvað að æfa sig úti við. Þau unnu einhver verðlaun og það þótti mjög spennandi. Ágúst var úti að hjóla á meðan. Það er voða mikið sport akkúrat núna. Auður er líka mjög dugleg að æfa sig.
Í gær var líka pakkað eitthvað niður í kassa, það virðist alltaf vera eitthvað að pakka niður. Það er af nógu að taka. Alveg spurning hvort þetta komist allt með. Það verður þá að skilja eitthvað eftir.
Annars er líka nóg að gera að planleggja síðustu metrana hérna. Það virðist heldur ekki vera neinn endir á því. Maður verður svo þreyttur þegar maður kemur heim til Íslands að maður hefur enga orku til að vinna. Gott að maður þarf bara að vinna í einn mánuð og svo er maður kominn í sumarfrí. Við ætlum að panta gott veður í júlí, svona af því að vorið hér virðist ætla að vera með eindæmum leiðilegt.
En jæja ætli maður reyni ekki að fara að slaka á eftir erill helgarinnar, svo maður geti gert eitthvað í vinnunni á morgun.
Kveðja
Gramgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.