14.5.2017 | 17:40
Litlir kassar á Lækjarbakka
Kæru bloggvinir
Það hefur eitthvað verið að vora meira hér í gær og í dag. Ágætis veður. Sérstaklega í dag. En það er nú ekki mikill tími til að njóta þess. Það mætti halda að dótið vaxi hérna inni. Maður heldur alltaf að það hljóti að fara að minnka eitthvað, það sem á eftir að pakka niður. En það sér varla högg á vatni.
Á föstudaginn var frídagur hér í Danaveldi og við héldum kveðjupartý fyrir það fólk sem við höfum haft mest samskipti við. Þetta var mjög fínt, en líka mjög erfitt. Það er ólíklegt að maður sjái þetta fólk aftur, svo frúin felldi ansi mörg tár.
Þetta er nú líka farið að hafa meiri og meiri áhrif á börnin. Auður tekur daglega skapofsaköst og hreytir út úr sér misfögrum orðum. Ágúst er mjög lítill í sér og það þarf ekki mikið til að hann brotni saman.
Næsta föstudag kemur gámurinn og við ætlum að fá að gista hjá Óla og Ástu síðustu dagana. Við þurfum að ganga frá og þrífa á laugardaginn og svo fljúgum við heim á sunnudaginn. Verst ef það fer að verða eitthvað rosa gott veður hér, þá finnst manni svo erfitt að fara héðan.
Frúin vinnur síðasta dag á fimmtudag. Það verður nú eitthvað grátið þá. Bóndinn fer í síðasta skipti í vinnuna á þriðjudaginn. Þeir eiga nú örugglega eftir að sakna hans. Hann er farinn að hanna hluti og láta til sín taka. Hann fór í röntgenmyndatöku í síðustu viku og fær niðurstöðurnar á morgun. Við krossum putta fyrir því að hann sé ekki með brotinn þumalputta. Ekki mjög góð tímasetning fyrir svoleiðis.
Það fer svo að líða að lokum þessa bloggs, sem hefur víst verið fastur gestur hjá nokkrum lesendum síðustu 8 árin allavega. Það verður skrýtið ekki að setjast niður á sunnudögum og skrifa um lífið og tilveruna. Kannski ég verði bara að halda áfram, til að fá ekki fráhvörf.
Annars hafa Danirnir eitthvað verið að vonast eftir að við færðum þeim einhverjar fréttir frá Íslandi. Ein sem frúin er að vinna með hafði af því áhyggjur hvort það væri sama internet á Íslandi og Danmörku, svo við gætum nú haldið sambandi. Fyndið hvað fólk er eitthvað lítið inn í hlutum utan síns eigins lands.
Í gærkvöldi fórum við til Óla og Ástu og grilluðum og horfðum á fyrrihluta eurovision. Frúin gafst upp í miðjum klíðum, alveg búin á því úr þreytu. Börnin fengu líka að vaka og fannst það mjög spennandi. Bóndinn hafði haldið með Portugal og var því mjög sáttur við úrslitin.
Jæja best að fara að slaka á fyrir átök vikunnar.
Kveðja
Gramgengið (verðum við svo bráðum Ásbrúargengið, eða hvað?) Góðar tillögur óskast
Athugasemdir
Hæ, hæ
Hvað gerir maður þá á sunnudögum ef ekkert blogg er til að lesa þá. Mæli með því að því verði haldið áfram þá það verði á dönsku, maður getur klórað sig fram úr því.
En hlakka til að hitta ykkur fljótlega, keyrðum rúnt upp á Ásbrú áðan, vorum að koma úr kaffi hjá guttunum, og kíktum á tilvonandi heimili ykkar 918. Einn nemandi minn var að flytja þangað líka um síðustu mánaðarmót.
Sjáumst
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 14.5.2017 kl. 18:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.