Nýjustu fréttir

Jæja, það er víst liðin vika frá síðasta bloggi, og einhverjir farnir að halda að við séum lögst í dvala (Kalli Sleeping). En við erum bara svona róleg í tíðinni. OKkur finnst skemmtilegra að skrifa sjaldnar og hafa þá meira að segja.

Aldrei þessu vant er sól hjá okkur í dag, þetta er búið að vera mikið rigningarsumar, reyndar eins og síðasta sumar líka. En við trúum enn að það geti ræst úr þessu. Maður verður verulega þunglyndur á þessari grámyglu hérna.

Við vorum að skrifa undir síðustu pappírana í sambandi við húsið í vikunni. Svo nú fer vonandi að styttast í að við getum flutt. Það hefur ekkert heyrst ennþá frá fólkinu sem er að flytja út. Þetta er mjög gamalt fólk sem á óhuggulega mikið af húsgögnum og öllu mögulegu. Þannig að það á eftir að taka tíma að flytja það allt. Sonur þeirra býr við hliðina og hann ætlar víst að fá þetta allt saman. Við föluðumst eftir að kaupa nokkra gamla antikskápa, en hann gaf ekki mikið út á það. Við fáum gamla bensínsláttuvél, en annað var ekki til umræðu. Menn passa vel upp á aurinn hérna á Suður-Jótlandi.Smile Hann á risastórt hús, og vantar eflaust einhverjar mublur í það. Gamla fólkið var með olíukyndingu á tímabili og höfðu risastóran olíutank í garðinum. Hann er kolryðgaður og götóttur, en hann stendur í innkeyrslunni hjá syninum núna ! Við höldum kannski að sonurinn þjáist af sama vandamáli og pabbinn, að það megi ekki henda neinu.

Helga byrjaði í skóla í Vojens í vikunni. Það er frekar mikið vesen fyrir hana að komast í skólann héðan frá, en það verður lítið mál þegar við erum flutt. Henni fannst frekar súrt að þurfa að hjóla 6 km til að komast í strætó. En hún tók þessu öllu mjög vel. Það verður að segjast eins og er að rútusamgöngur hér frá Stubbæk eru vægast sagt ömurlegar. En fyrsta daginn var hún svo heppin að einn kennarinn tók hana með frá Aabenraa. Annars tekur túrinn hana um klukkutíma.

 Það eru 98 nemendur í þessum skóla, en hann er bara fyrir 10. bekk. 10 bekkur er ekki skylda hérna, svo þetta eru krakkar frá mörgum stöðum. Hún skyldi nú ekki mikið það sem var sagt fyrsta daginn, en þetta kemur nú allt með tímanum. Maður lærir ekki dönsku á einum degi. Hún er allavega jákvæð og það skiptir mestu máli.

Sá gamli (Gummi) átti svo afmæli í gær. Við nefnum engar tölur, enda eru þær svo háarWhistlingVið tókum daginn með ró, þar sem kappinn var lasinn. Hann er nú eitthvað að hressast, svo kannski hefur þetta verið aldurinn sem hefur lagt hann í rúmið.

Sú gamla (Ragga) var á síðum staðarblaðsins í Haderslev í vikunni. Haderslev er bærinn þar sem hún vinnur. Blaðið birti grein um verkefnið sem hún vinnur við. Vakti mikla lukku, enda konan einstaklega hrifin af að láta taka af sér myndirGetLost En meiningin var nú að kynna verkefnið, og það tókst mjög vel. Svo tilganginum er nú líklega náð. Verkefnið gengur út á að vinna með börn og unglinga, sem eiga erfitt. Til dæmis skilnaðarbörn og börn með kvíða. Við vinnum líka með börn sem alast upp hjá geðsjúkum foreldrum. Þetta er mjög gefandi og spennandi vinna.

Þá fara nú tíðindabrunnarnir að vera uppþornaðir. Enda þetta verið óvenjuviðburðarík vika.

Vonum að einhver hafi gaman af að lesa þennan pistil. Reiknum með að það heyrist frá okkur aftur næstu helgi.

Kveðja frá DK

Gummi, Ragga og Helga Rut

Ozzy, Snælda og Snoppa

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigga

brilljant - mikid var að þið drifuð ykkkur í að fara að blogga - svo gaman að fylgjast með og sjá myndir o.s.frv

gangi ykkur vel að flytja og gera húsið íbúðarhæft o.s.frv - þessi nágranni virðist vera soldið spes! ha ha en já, verður gaman að sjá fyrir og eftir myndir

knús og kossar

s.

Sigga, 17.8.2008 kl. 14:23

2 Smámynd: Bragi Einarsson

Til hamingju með ammælið, kallinn. Auðvitað geta menn orðið þunglyndir af aldrinum en það er óþarfi að leggjast í bælið út af því. Gangi ykkur vel með húsið, enn og aftur.

Bragi og Gunna og skæruliðarnir

Bragi Einarsson, 17.8.2008 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband