31.8.2008 | 12:21
Loksins SÓL og sumar
Góðir hálsar
þá er komið að vikulegu bloggi okkar, og eflaust einhverjir orðnir langeygðir eftir því! :) Annars er það helst í fréttum að sólin hefur skinið bæði í gær og í dag. Húsbóndinn fór því í það að slá garðinn í morgun. Það hefur aldrei verið önnur eins grasspretta. Maður hefði getað fóðrað heilan hest á þessu. Lýsingar þessar gætu fengið fólk til að halda að við værum með risastóra lóð, en hún er nú sennilega ekki meira en 50 fermetrar.
Það er ekkert nýtt að frétta af húsamálum. Svo við bíðum bara. Frekar pirrandi að þurfa að bíða svona. Við viljum bara komast í gang. Svo maður þurfi ekki að vera í algjöru stressi að skila núverandi húsnæði af sér og flytja á nýja staðinn. En það endar nú sennilega með því.
Húsfreyjan var aftur á síðum staðarblaðanna í vikunni. Gríðarlega góð grein!! Þeir sem eru sleipir í dönskunni geta fundið hana á slóðinni http://www.e-pages.dk/bgmonline_hu/105/. Greinin er á blaðsíðu 6. Líklega er fjölmiðlafárinu þá lokið í bili. Það verður erfitt að vera bara hvunndagshetja eftir að hafa verið svona mikið í sviðsljósinu.
Heldur hefur verið lát á dýrafárinu hérna á heimilinu síðustu vikuna. Aðeins ein mús hefur fundist, dauð undir rúmi. Svo það telst nú víst mjög gott.
Helga hætti í skólanum. Kennararnir áttu eitthvað erfitt með að skilja að hún talaði ekki dönsku. En yfirkennarinn var búin að segja að þetta yrði ekkert mál. Þau myndu bara tala ensku til að byrja með. Kennararnir neituðu svo bara að tala ensku við hana og voru bara með einhverja stæla. Þetta kemur nú svo sem ekki á óvart þar sem Danir virðast margir halda að danska sé okkar annað móðurmál. Við erum svo búin að tala við einhvern námsráðgjafa sem er að reyna að fá pláss fyrir hana í málaskóla og einhverjum verknámsskóla. Það er mánaðarferli að komast inn í málaskóla, svo hún getur kannski farið í verknámsskóla á meðan. En þetta kemur nú allt í ljós. Sá skóli er allavega nær okkur en hinn. Við vonum bara það besta.
Maðurinn sem yfirtekur íbúðina okkar hér í Aabenraa kom við í vikunni. Hann vildi nú ekkert kíkja á herlegheitin, vildi bara vita hvað kostaði að kynda og fara í bað. Hann á nú ekki eftir að borga nema brot af því sem við höfum gert. VIð spreðum auðvitað vatni eins og hver annar Íslendingur. Við höfum lært með árunum að spara pínu. En það er peanuts í augum Suður-Jóta.
Jæja látum þetta nægja að sinni. Börnin í hverfinu eru komin út að leika, það gerist aðeins þegar hitinn fer yfir 20 gráður.
Kveðja
Ragga, Gummi, Helga og dýrin í skóginum
Athugasemdir
keep it coming hun xx
er svo ánægð með að þið séuð byrjuð að blogga ... kíki á greinina...geri nú samt ekki ráð fyrir að ég eigi eftir að skilja mikið!
Sigga, 3.9.2008 kl. 09:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.