7.9.2008 | 14:55
Sunnudagur til afslöppunar
Kæru lesendur
hér kemur pistill vikunnar. Þetta hefur nú ekki verið sérlega viðburðarík vika. Bara það sama og venjulega. Vinna, éta og sofa. Það er sérstaklega vinsælt að sofa fyrir framan sjónvarpið á kvöldin. Það má eiginlega segja að það sé kominn metnaður í hversu lengi maður nái að halda sér vakandi. Húsfreyjan hefur einstaka hæfileika á þessu sviði og sama hversu spennandi sjónvarpsefnið er, hún getur alltaf sofnað. Húsbóndinn á þetta til líka, en hann vill aldrei viðurkenna að hann sé sofandi, heldur þrætir fram í rauðan dauðann.
Helga byrjaði í öðrum skóla á föstudaginn. Hann er ekki svo langt hér frá. Skólinn er fyrir krakka sem vita ekki alveg hvað þau vilja læra. Þau geta valið sér verksvið og vinna svo við það. Helga valdi að fara í eldhúsið, og þá á hún að hjálpa til við matargerð og húsverk almennt. Þau fá einhvern smápening fyrir og fá mat á hverjum degi. Hún getur verið þarna þangað til við flytjum. Þá ætti hún að geta farið í málaskóla. Það tekur því ekki fyrir hana að byrja á því hérna, þegar við þurfum að flytja í annað sveitafélag. Og reglurnar eru þannig að hún kemst ekki í málaskólann fyrr en hún hefur lögheimili í sveitafélaginu. Já stundum eru reglurnar hérna merkilegar!
Það kólnaði snögglega í vikunni, sem þýddi að húsbóndinn kvefaðist og liggur hálfónýtur á sófanum. Ekki bætti úr skák að hann var farinn að taka íslenskt lýsi, og var hraustur sem fíll. Síðan kláraðist flaskan og við höfum ekki fundið lýsið aftur. Það er selt í mjög fáum búðum hérna úti. En núna erum við búin að sjá aðra búð sem selur það, svo það er um að gera að fá sér birgðir. Smá auglýsing fyrir íslenskt lýsi hérna.
Það kom í ljós í vikunni að einn af fastakúnnunum í strætó hjá honum er íslensk. Hún hafði heyrt hann tala íslensku í símann og fór að tala við hann. Það er ótrúlega mikið af Íslendingum í Sönderborg. Svo það þýðir allavega ekki að vera að segja eitthvað miður fallegt. Maður veit aldrei hvort einhver skilur það.
Eins og heyra má er vikan búin að vera ansi venjuleg. Enda erfitt að toppa allt fjölmiðlafárið sem hefur verið undanfarið!
Bestu kveðjur
Familien i Stubbæk
Athugasemdir
Sæl verið þið. Ekki lítið gaman að sjá að þið eruð farin að blogga. Ragga þú gleymdir reyndar alveg að láta mig vita af þessu bloggi
En gaman að sjá að þetta er allt að ganga upp með húsamálin þarna og það verður gaman að sjá fleiri myndir þegar þið farið að athafna ykkur þar. Annars bara bestu kveðjur til ykkar og takk fyrir að lesa bloggið mitt og kvitta
Kveðjur úr Ameríkuhreppi, Kata og Co.
Kata (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 16:43
Hæ hæ!
Engar fréttir eru auðvitað góðar fréttir! Gott að heyra að allt gengur vel hjá ykkur - ég kannast afar vel við hversu gott er að sofa yfir sjónvarpinu, mjöööög þægilegt!
Bestu kveðjur til ykkar allra,
Lilja, Ari Páll og allir
Lilja Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 09:04
Flott að heyra að svefnvandamál húsfreyju og bónda á við beggja vegna Atlandsála. Mín á það nefnilega til að sofa með mér eins og eina kvölddagskrá og getur sofið þessvegna alla nóttina líka
Héðan er att gott að frétta, allir biðja að heilsa.
Bragi Einarsson, 11.9.2008 kl. 20:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.