19.10.2008 | 17:16
Alflutt til Tiset
hæhæ allir
þá er komið að fyrstu færslunni hérna frá Tiset. Við erum bara með einhverja þráðlausa tengingu í fartölvunni og þetta er með eindæmum hægvirkt, svo við nennum nú ekki að vera mikið að skrifa hérna inni. Við vitum ekki enn hvenær við fáum tengingu í hina tölvuna. En reynslan segir okkur að við verðum bara að vopna okkur með þolinmæði og bíða.
Við erum loksins búin að skila lyklunum að gömlu íbúðinni í Stubbæk. Það er mikill munur að þurfa ekki að hugsa meira um það. Við vorum búin að vera þar öll kvöld eftir vinnu síðan um mánaðarmót að mála og þrífa. Ótrúlegt hvað 2 manneskjur geta skitið mikið út. Reyndar skíta dýrin sennilega meira út en við. Það eru hunda og kattahár út um allt.
Við erum ekkert búin að gera meira hér í Tiset. VIð erum að bíða eftir einhverjum pappírum sem allt í einu uppgötvaðist að við áttum eftir að skrifa undir, og þeir eru ekki tilbúnir. Svo við tókum bara garðinn aðeins í gegn hér í morgun. Komumst að því að sláttuvélin sem fólkið skildi eftir, virkaði með ágætum. Reyndar er bletturinn svo ósléttur að það þarf nánast að vera á fjórhjóladrifnu tæki til að komast um. En sláttuvélin er sem betur fer sjálfkeyrandi, maður myndi verða þokkalega þreyttur að ýta þessu á undan sér um þessa ófæru. Það þykir mikill lúksus hér í Danaveldi að eiga svona sláttuvél.
Það er eitt eplatré og eitt perutré í garðinum. Svo er nágranninn með 2 risastór eplatré sem teygja sig yfir í garðinn okkar. Eplin og perurnar eru eiginlega alveg dottin af og þetta var heill kerrufarmur á haugana. Manni hefur alltaf þótt sjarmi yfir þessu að hafa epli og perur í garðinum, en sá sjarmi er farinn. Það er ekkert sjarmerandi við að týna rotin epli og perur upp af jörðinni. Þetta eru líka risastór tré svo það er ekkert auðhlaupið að því að ná þessu. Við fengum líka vel að kenna á brenninetlum í dag. Það er enginn skortur á þeim. Við fundum líka gorma úr gömlum dívan, olíubrúsa og ýmislegt fleira. Enda hefur garðurinn verið í órækt í langan tíma og verið notaður sem ruslahaugur. Svo við eigum örugglega eftir að finna marga spennandi hluti í framtíðinni.
Jæja þetta er nú það helsta sem á daga okkar hefur drifið á síðustu dögum. Við erum ansi lúin eftir flutningana og vinnuna í Stubbæk. Danirnir eru alveg rothissa á því að við höfum ekki tekið okkur neitt frí. Þeim finnst það hin mesta vitleysa! :)
Við reynum að taka fleiri myndir fljótlega og setja hérna inn. VIð erum búin að rífa veggfóður af og gólfefni. Svo þetta er svona eins og fokhelt hús núna.
Jæja baráttukveðjur í kreppuna
Tisetgengið
.
Athugasemdir
Ooo, hvað það er rosalega gaman hjá ykkur núna :)
Bragi Einarsson, 20.10.2008 kl. 09:27
hey hey...mikið verk fyrir höndum...er viss um að þetta verði rosalega flott þegar þið hafði tekið í gegn... ég vona að internetið fari að komast í lag svo við megum eiga von á fleiri færslum soon xx
Sigga, 22.10.2008 kl. 12:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.