26.10.2008 | 12:23
Húskaup endanlega frágengin
Kæru bloggvinir
þá er maður endanlega orðin húseigandi. Sko frúin. Bóndinn býr hérna bara og hjálpar til! :) Og borgar auðvitað leigu. Hvað annað. Nei smá spaug. Allavega gott að vera kominn með endanlegan kaupsamning í hendurnar. Þá ætti þetta nú allt að vera klappað og klárt. Bóndinn er að vinna um helgina svo það verður lítið ráðist í framkvæmdir fyrr en í næstu viku. Hann réðst nú samt í að rífa niður úr loftinu í svefnherberginu í vikunni. Hafði nú bara hugsað sér að mála yfir en réðst samt í verkið. Sem var eins gott þar sem undir loftplötunum höfðu búið mýs, þar var allt fullt af músaskít og tvær beinagrindur af einhverjum dýrum. Þannig að nú þarf sem sagt að rífa steinullina niður og skipta um þetta allt. 'Eg segi nú ekki annað en, það var gott að kallinn reif loftplötunar niður. Nú þurfum við bara að setja eitur eða eitthvað til að finna út hvort það eru fleiri félagar hérna inni. Okkur þykir stórmerkilegt að kettirnir hafi ekkert verið æstir út af þessu. Eða hundurinn. Þau virðast ekkert hafa pælt í þessu.
Við erum tíðir gestir á ruslahaugunum og bóndinn er búinn að eignast vin þar. Einn af þeim sem vinnur á haugunum byrjaði að tala við okkur þegar við komum fyrst, og nú spjallar hann alltaf þegar við komum. Hann býr líka hér í bænum. Hann vill endilega að við verðum virk í félagslífinu og bóndanum leist nú vel á það, þar sem hann er einstaklega mannblendinn. Frúin var ekki eins hrifin, þar sem hún er nú ekki sú félagslyndasta. Allavega, hún hélt nú ekki að þetta yrði neitt vandamál. Kallinn gæti þá bara tekið þátt í félagslífinu og hún verið heima. En nei nei. Við skruppum á haugana á föstudaginn og þá sagði haugamaðurinn að það væri borgarafundur í Tiset á mánudag (á morgun) og við værum auðvitað meira en velkomin. Kallinn varð strax upprifinn og vildi mæta. Komst svo að því að hann var á kvöldvakt, svo ekki gekk það nú. Varð það því að samkomulagi að frúin mætir á fundinn og keyrir með haugamanninum, af því kallinn er á bílnum í vinnunni. Jájá einmitt. Haldiði ekki það verði stuð. Allir að horfa á nýju konuna í Tiset, sem ekki nóg með að vera Íslendingur, er líka sálfræðingur. Frúin bíður spennt. Þetta verður mjög menningarlegur fundur, meðal annars mun einhver kona í bænum sýna myndir frá ferð sinni til Úganda. Og eftir auglýsingunni að dæma eru þetta svona gamaldags slidemyndir, á svona litlum kubbum, sem eru settar í svona vél og varpað upp á vegg. Hehehe, það verður spennandi að sjá. Það er sem sagt líf og fjör hér í bænum.
Við fórum í smá göngutúr um bæinn í gær. Þetta er nú bara svona pínulítill bær. Mjög fyndin samsetning. Það eru nokkur hús sem er verið að gera upp, og önnur sem er vel við haldið. Svo eru nokkur inn á milli sem eru í algjörri niðurníðslu. Við höldum að það búi töluvert af gömlu fólki hérna. En það er pínu erfitt að átta sig á því af því þetta er svona bær sem er mikið keyrt í gegnum, svo maður veit ekki hvort fólk á heima hérna eða er bara að keyra til og frá vinnu.
Annars gengur lífið sinn vanagang hér. Úti er rigning eins og vanalega. Kellan þarf að fara að finna til brenni í ofninn, svo hægt sé að fá yl í kofann í kvöld. Við verðum í framtíðinni að kaupa okkur stærri brenniofn sem heldur lengur heitu. Hann nær ekki að halda öllu húsinu heitu alla nóttina. Það kemur skorsteinsmaður í næstu viku að kíkja á skorsteininn. VIð þurfum að fara að fá líf í brenniofninn sem er í stofunni. Það hjálpar örugglega til ef maður getur kveikt upp í honum líka.
Það gengur voðalega hægt að finna tungumálanám fyrir Helgu. Þetta virðist vera mjög erfitt. Sérstaklega þar sem hún er íslensk. Það er hægt að komast í skóla ef maður er Rússi eða Pólverji, en ekki Íslendingur. Svo er tungumálaskólinn í héraðinu aðeins fyrir 18 ára og eldri. En vonandi fer þetta eitthvað að leysast.
Jæja best að koma sér að verki
kveðja á klakann
Gummi, Ragga og Helga og músafjölskyldan
Athugasemdir
Hehe, þú verður nú endilega að blogga aftur eftir borgarafundinn. Ég er viss um að þá verður búið að bóka þig sem aðal ræðumann næsta borgarafundar að tala um ástkæra föðurlandið og ástandið þar
!
Vonandi gengur svo sambúðin áfram svona vel hjá ykkur og músafjölskyldunni
Kveðja frá restinni af fjölskyldunni, Kata.
Kata (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 02:17
Já, ég bíð spenntur eftir því hvernig þér hefur gengið á fundinum. Ertu orðin bæjarstjóri?
Bragi Einarsson, 31.10.2008 kl. 08:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.