Ekki enn orðinn bæjarstjóri

Kæru bloggvinir

Þeir sem ennþá nenna að lesa bloggið okkar eru eflaust orðnir spenntir eftir að heyra hvort frúin sé orðin bæjarstjóri í Tiset. En bara róleg. Það er engin bæjarstjóri í þessum litla bæ, svo hún verður að reyna að leita eftir öðrum mikilvægum embættum í bænum.

En allavega, frúin þrælaði sér á borgarafundinn á mánudaginn. Þar var margt um manninn, ca. 10% af bæjarbúum var mættur Wink. Meðalaldurinn var ca. 55 ár. Fyrir utan frúna, sem auðvitað er barnung, var annar ungur maður á svipuðu reki. Frúin hélt þetta yrði svona klukkutíma fundur. En neinei, þetta var 3 tíma fundur. Og við fengum heimasmurt bakkelsi og eina gos eða bjór. Já og geri aðrir betur. Það þóttist enginn vita að við værum flutt í bæinn, og stóðu alveg á gati. Sem okkur finnst mjög ótrúlegt. VIð héldum að þetta væri svona bær þar sem maður gæti ekki leyst vind án þess að allir vissu. Nú svo átti að kjósa í nýja stjórn og sem betur fer var búið að útnefna einhverja sem við svo áttum að samþykkja. En frúin var nú samt spurð hvort hún vildi ekki vera með. Hún afþakkaði pent. Cool Í lokin voru svo sýndar fínar ljósmyndir frá Úganda. Þeir voru svo tæknivæddir að þetta var sýnt gegnum tölvu. Já þeir fylgjast vel með hér í Tiset. Ég komst líka að því að meðalaldurinn í bænum er 40 ár. Og íbúafjöldinn í bænum er 120 og 200 með sveitunum í kring. Frúnni þótti nú best að hún sá loksins hinn fræga sálfræðing, (þennan með græna hárið). Sögurnar virðast ekki hafa verið mikið ýktar. Maðurinn var mjög undarlegur útlits, þó ekki með grænt hár. Það sem hann sagði var ekki minna undarlegt.

Nú annars er það að frétta að Helga er loksins búin að fá pláss í málaskóla. Reyndar bara tvo tíma tvisvar í viku. En það er betra en ekkert. Hún á að byrja á þriðjudaginn, svo það verður nú spennandi. Við erum að vinna í að finna eitthvað meira handa henni að gera. T.d svona skóla eins og hún var í, áður en við fluttum. En þetta kemur nú allt í ljós.

Í dag var svo ráðist í að rífa niður úr loftinu í hinu svefnherberginu niðri. Þar höfðu greinilega líka búið mýs og haft það gott. Mann langar ekkert að vita hvert þær eru flúnar núna. Þær hafa allavega ekki sést í eldhúsinu. Það er þannig hér í Danmörku að ef maður heldur að maður sér með rottur, þá verður einhver að koma frá sveitafélaginu og kíkja á það. Svo nú bíðum við eftir að það komi einhver vitringur/rottubani og kíki á málið. Á meðan getum við eiginlega ekkert gert. Við erum búin að panta efni í loft og gólf, svo nú er bara að sýna þolinmæði, enda gerast hlutirnir ekki hratt í Danmörku. Enda erum við orðin svo dönsk í anda að við kippum ekkert upp við að þurfa að bíða.

Við renndum til Ribe bæði á föstudaginn og í dag. Enda ekki nema korters keyrsla þangað. Þeir sem eru vel að sér í sögu vita eflaust að þetta er elsti kaupstaður í Danmörku. Mjög fallegur bær. Og fullt af gömlum og vel varðveittum húsum. Þeir hafa líka eitthvað verið að reyna að lokka til sín storka, en það hefur nú gengið eitthvað brösuglega. Í Ribe er hægt að sækja alla þjónustu, þetta er töluvert stór bær. Svo við erum nú ekki alveg á flæðiskeri stödd.

Jæja best að láta þetta duga að sinni

kveðja

Ragga, Gummi og Helga Rut


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl

Alltaf gaman að lesa bloggið frá ykkur, þið heimtið bara að stofnaður verði bær svo Ragga geti fengið stólinn. Já Ribe er fallegur bær og gaman að koma þangað. Sérstaklega að fara upp í Dómkirkjuturninn, man nú ekki alveg hvað tröppurnar voru margar. Svo er flott Víkingasafn í Ribe og enn flottara Víkingaþorp rétt fyrir utan Ribe. Vonandi gengur vel að uppræta öll músahreiður og gera húsið fínt. Sjáumst vonandi ánæsta ári.

Kveðja

Gunna, Bragi og guttarnir

Gunna (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 16:56

2 identicon

Hæ og til hamingju með húsakaupin flutninginn og bara allt. Ég fylgist með þá lítið heyrist í mér. Hvar er þessi staðu, nálægt hverju?Ég vildi vera komin aftur til DK. Langar ekki voða mikið að vera hérna, og vonast til að geta farið eitthvað fyrr en seinna. Hvernig gengur með húsið? Kveðja Vally

Vally (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband