16.11.2008 | 17:02
Loksins byrjuð á endurbótum
Kæru bloggvinir
það borgar sig greinilega að kvarta hérna inni, allavega hafa margir kvittað fyrir innlitið. Gaman að sjá hverjir kíkja hérna við. Það þarf nú ekkert að skrifa ritgerð í hvert skipti! Svo takk til þeirra sem kvitta. Við erum búin að setja nýjar myndir af framkvæmdunum, undir albúminu, november.
Vikan byrjaði ákaflega spennandi. Frúin fór út með hundinn á mánudagsmorguninn, og þá stóð hellingur af mönnum í appelsínugulum fötum í innkeyrslunni. Þeir gengu um með eitthvað málmleitartæki. Frúnni datt auðvitað fyrst í hug að þeir væru að leita að gulli, en nei þeir voru að leita að rafmagnsleiðslum. Frúin varð voða glöð og hélt að nú fengjum við loksins almennilegt internet og síma. En neinei, þetta voru auðvitað bara kaplamennirnir. Þeir lögðu kapalinn upp að húsinu og nú bíðum við svo eftir þriðja aðilanum sem á að bora gat inn í húsið og ganga frá. Guð má vita hvenær hann birtist. En allt er þetta þó í áttina.
Við fengum loksins efni í herbergin niðri í vikunni og höfum því verið að pússa og spasla um helgina. Erum líka búin að setja einangrun í loftin. Nú vantar okkur svo bita í loftið til að festa loftborðin á. En það er allavega rosa gott að vera byrjaður. Það verður ekki mikið úr verki hér í miðri viku. Frúin vinnur langt fram á kvöld og kallinn fer á fætur fyrir allar aldir af því hann þarf að keyra svo langt í vinnuna. En þetta mjakast nú allt. Mest þreytandi þegar manni vantar einhverja smáhluti og getur ekki haldið áfram.
Það hefur verið frekar óskemmtilegt veður hér undanfarið, rok og rigning og grámygla. Megum við þá heldur biðja um myrkur og kannski smá frost. Við erum búin að gleyma hvenær það var þurrt síðast.
Við erum orðin miklir sérfræðingar í brenniofnum. Þetta er alveg kúltúr út af fyrir sig. Maður þarf að láta tréð standa úti í minnst eitt ár, áður en það má nota það. Maður má ekki brenna blautt tré. Við þurfum einhvern tíma að endurbæta þennan brenniofn sem við erum með, af því hann heldur ekki nógu lengi heitu. Það eru víst ýmsir möguleikar í boði, sem við þurfum að kanna betur. Það er reyndar líka hægt að halda húsinu heitu með gasi, en við erum að reyna að spara með því að nota brenniofninn. Við vorum að pæla í að losa okkur við gashitarann, en það kostar einhverja fúlgu, svo við látum hann standa.
Köttur nágrannans er farin að gera sig býsna heimakæran hér hjá okkur, hann situr makindalega hér fyrir utan, svo okkar kettir, sem ekki eru sérstaklega kræfir, þora ekki út úr húsi.
Við höldum að mýsnar hafi gefið upp öndina. Það hefur ekkert til þeirra heyrst í nokkra daga. Svo vonandi erum við laus við þann ófögnuð. Danirnir kippa sér ekkert upp við svona og finnst þetta ekkert tiltökumál.
Við renndum til Ribe í dag, sem er ekki í frásögur færandi, en við lentum á eftir bílaröð, sem er ekki algengt hér. Ástæðan var að fremsti bíllinn keyrði meira á öfugum vegarhelmingi en réttum. 'Ymist keyrði hann á 20 eða 60. Bóndanum leiddist þófið og keyrði upp að honum og flautaði af miklum krafti. Við það vaknaði bílstjórinn og við komumst framúr. Þegar við keyrðum framúr sat bílstjórinn og veifaði bjór framan í okkur. Þegar við svo komum til Ribe var löggan búin að taka hann, en hefur nú örugglega bara sagt við hann, skamm skamm og ekki gera þetta aftur.
Jæja þetta var í fréttum helst
kveðja
Gummi, Ragga og Helga Rut
Athugasemdir
JIbbííí.. loksins myndir !!!
Þetta er glæsilegt framtak hjá ykkur og það verður gaman að fylgjast með !
Bestu kveðjur úr Kolalundi,
Steini og Sigrún.
Þorsteinn Eggertsson (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 15:21
þau er bara nánast fokhelt sum herbergin hjá ykkur! Fleiri myndir, gaman, gaman.
Og ekki orð um það meir
(var þetta nógu stutt hjá mér núna?)
Bragi Einarsson, 19.11.2008 kl. 22:39
Ekkert blogg um helgina, fundu appelsínugulu kallarnir kannski gull og þið flogin burt.
Kveðja
Gunna
Gunna (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 17:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.