28.12.2008 | 14:23
Jólin búin
Kæru bloggvinir
Þá eru jólin liðin einu sinni enn. Og maður er búin að borða ýmsar íslenskar kræsingar hér í útlandinu. Við fundum íslenskan hamborgarahrygg í frystinum, frá því í fyrra, og hann bragðaðist bara alveg prýðilega. Við fengum svo hangikjöt, heima hjá Steina og Sigrúnu á jóladag. Þannig að þetta er nú bara búið að vera mjög gott. Við erum bæði orðin þannig að við getum ekki troðið í okkur mat endalaust, svo það kemur sér nú vel á svona hátíðum.
Frúna langaði mikið í jólatré og á þorláksmessu var drifið sig í að leita að slíku. Það er ekki sjálfgefið mál að fá jólatré svona stuttu fyrir jól. Enda komumst við að því að það var alls ekki auðvelt. Við fundum þó á endanum eitt sem komst hérna upp á loft hjá okkur. Svo jólunum var bjargað. Til að toppa þetta allt saman fengum við fullt af góðri íslenskri jólatónlist hjá Steina vini okkar og það reddaði þessu alveg. Það er greinilega ekki hefð fyrir því hjá Dönum að hlusta á jólatónlist. Þeir spila sömu lögin milljón sinnum og þeir virðast ekki eiga nein svona hátíðleg jólalög. En við erum nú búin að reka okkur á þetta áður, svo við eigum nú slatta af jólatónlist, hún er bara öll ofan í kassa núna!
Við erum næstum búin með svefnherbergið niðri. Okkur vantar bara að setja gólflista á. Við eigum eftir að kaupa þá. Við héldum að það yrði nú barnaleikur að leggja parketið, en nei. Eftir mikið blóð, blót, svita og tár, náðum við þó að leggja þetta niður. En það var langt frá því að vera létt. Bóndinn var búinn að sjá á einhverjum heimasíðum á netinu að þetta væri svo auðvelt að jafnvel gamalmenni gætu þetta án vandræða. Einmitt! :) Að vísu eru gólfin og veggirnir í herberginu mjög skakkir og við engir útlærðir parketlagningarmenn. En allavega er það komið á gólfið í stærra svefnherberginu og lítur bara alveg viðunandi út. Við verðum svo aðeins að bíða með hitt herbergið niðri af því það vantar málningu í loftið. Það getur tekið einhverjar vikur að fá það. Svo það lítur út fyrir að bóndinn fái að slappa aðeins af seinnipartinn í dag! :)
Á annan í jólum má segja að næstum öll fjölskyldan hafi farið í göngutúr. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema af því að hundurinn var að sjálfsögðu með og annar kötturinn tölti á eftir okkur. Hún hefur aldrei gert þetta áður, svo okkur fannst þetta nú dálítið merkilegt. Hún vill nú helst ekki vera mikið nálægt okkur svona almennt, svo kannski var þetta bara andi jólanna sem var yfir henni.
Á morgun er frúin að fara í fyrsta skipti til ljósmóður. Þetta verður nú sennilega bara svona létt spjall um hvernig maður á að hegða sér á meðgöngunni. Hún verður örugglega mjög hissa á því að maður hvorki reyki né drekki, því það er ekki óalgengt að konur hér geri það, þó þær séu óléttar. Og ég held að það þyki ekkert svo skaðlegt, allavega ekki hér úti á landi. Þær standa allavega oft fyrir utan fæðingadeildina og púa. Afsakið reykingafólk, en mér finnst þetta ógeðslegt. Á þriðjudaginn er hún svo að fara í svokallaða hnakkaþykktarmælingu, sem á að segja eitthvað til um áhættuna á að fóstrið sé með downs syndrom. Svo þá fær maður allavega að sjá krílið aftur á skanna. Bóndinn kemst reyndar ekki með í þessa skoðun, en kannski fær maður mynd með heim. Við sáum krílið fyrst þegar það var bara 8 vikna og þá líktist það nú einna mest stórri rækju! :) Ég man nú ekki hversu oft maður fer í skoðun á meðgöngunni, en ætli það sé ekki eitthvað svipað og heima.
Eftir áramót byrjar bóndinn svo í annarri vinnu, en hjá sama fyrirtæki. Hann á að keyra fötluð börn til og frá skóla. Þetta verður voða munur. Hann þarf ekki að keyra eins langt í vinnuna og fær að hafa fyrirtækisbílinn með heim. Svo frúin sleppur við að vera háð almenningssamgöngum. En þær eru vægast sagt lélegar hér í sveitinni. Það styttir líka töluvert daginn hjá manni. Áður hefur maður notað svona 3 tíma á dag í að komast í og úr vinnu. 'A eigin bíl ætti maður að komast af með helminginn. Allavega meðan bíllinn lifir. Hann er nú farinn að kenna sér ýmissa meina, enda með mörg ár á bakinu. Við viljum helst ekki eyða miklum pening í að gera við hann nema það sé nokkuð tryggt að hann fari í gegnum skoðun í vor. En við sjáum til hvað setur.
Við vorum búin að fá mann sem hreinsar skorsteina til að meta hvað kostaði að gera við skorsteininn hjá okkur, en hann er mjög óþéttur. Hann taldi að það kostaði ca. 200.000 ísk að gera við hann. Við spurðum því fasteignasalann hvort fyrri eigendur ættu ekki að borga það, af því það var ekki hægt að sjá neitt á skorsteininum þegar við keyptum húsið. Hann athugaði málið, en þau vildu ekkert taka þátt í þeim kostnaði, svo nú þurfum við að finna út hvað er sniðugast að gera. Við getum fjarlægt skorsteininn alveg, eða notað bara efsta hlutann af honum. Eða látið hann vera eins og hann er, ef við skildum vilja fá brenniofn í stofuna seinna. Við verðum bara að fá múrara til að kíkja á þetta svo við getum betur áttað okkur á hvað hægt er að gera. En allavega kostar þetta meira vesen en við höfðum reiknað með. En það er víst alltaf þannig.
Jæja best að fara að hætta þessu núna
Vonum að allir eigi góð áramót og óskum ykkur öllum gleðilegs nýs árs
kveðja
Gummi og Ragga og ferfætlingarnir
Athugasemdir
Æðislegt að "heyra" í ykkur. Gaman að fylgjast með héðan af klakanum. Sérstaklega þegar svona mikið er að gerast hjá ykkur, bæði framkvæmdir, ný vinna og svo náttúrulega meðgangan. Annars er nú ansi mikil fjölgun í ættinni hjá Braga á næsta ári manni stendur ekki alveg á sama. En gangi þetta nú sem best hjá ykkur allt saman. Verðum í sambandi.
Nýárskveðjur frá okkur í Garðinum
Gunna (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 00:43
Ojbara, ekki finnst mér í lagi að reykja á meðgöngunni! Rosalega er ég glöð að þið séuð komin með blogg, finnst æði að geta fylgst með ykkur og kíki reglulega eftir nýjum færslum.
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir allt gamalt og gott.
Bestu kveðjur, Hildur og co.
Hildur (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 15:44
Hæ hæ góda fólk.
Gledilegt nýtt ár og vid thökkum fyrir thau gömlu gódu.
Jú jú nú er lilli. ordin sur, jú thessi bloggheimur er svolítid merkilegt fyrirbæri
Knús og kærar kvedjur til ykkar tveggja + bumbubúans (rosalega spennó ædislegt)
sur, 2.1.2009 kl. 23:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.