Kominn í netsamband aftur

Kæru bloggvinir

þá er komið netsamband aftur í Tiset. Það er reyndar ekkert sérstaklega stabílt eða hraðvirkt, en allt er betra en ekki að hafa neina nettengingu. Annars gerðust undur og stórmerki hér í síðustu viku. Hér kom maður frá internetfyrirtækinu og lagði kapalinn inn í húsið. En eins og fyrri daginn eru hlutirnir nú ekki einfaldir hér í Danmörku. Nú þurfum við að bíða eftir að fá tilkynningu frá fyrirtækinu um að við getum tengst við netið. Síminn og sjónvarpið kemur líka eitthvað seinna. Já þetta er nú alveg með eindæmum. En eftir 8 ár í Danmörku er fátt sem kemur manni á óvart lengur! :)

Við erum komin með hita í húsið. En þar með er sagan ekki öll sögð. Við erum búin að vera að leita að stað til að kaupa eldivið síðustu vikurnar. Nágranni okkar vildi nú ekki láta mikið uppi en benti okkur á tvo staði sem hægt væri að kaupa eitthvað. Við fórum því í leiðangur eftir að hafa hringt á fyrsta staðinn. Þeir sögðust eiga nóg af eldivið, eða myndu allavega geta skaffað það. Þegar við svo mættum á svæðið með kerruna, var ekkert til og minnst 2 mánaða bið eftir að fá bara eina kerrufylli. Okkur fannst þetta nú heldur léleg þjónusta, en við gáfumst nú ekki upp. Við reyndum næsta stað sem hann hafði bent okkur á, á einhverjum bóndabæ. Bóndinn var mjög dularfullur en taldi sig ekki eiga neitt, og benti okkur á að lesa staðarblöðin og sjá hvort ekki væri eitthvað þar. Sem við og gerðum og hringdum á tvo staði, og á öðrum staðnum var til brenni og við vonum að við fáum þetta fljótlega. Við áttum alls ekki von á að það væri neitt mál að fá brenni, þar sem svo margir Danir hita með tré. En við erum búin að læra af reynslunni. Við erum líka búin að læra að greiðasemi er ekki eitthvað sem vex á trjánum hérna. Í vkunni komu svo líka tveir spekingar að kíkja á brenniofninn okkar. Þeir ætla að reyna að mixa eitthvað saman svo við getum kynt allan sólarhringinn án þess að þurfa að fara á tveggja tíma fresti og fylla á hann. Það verður spennandi að sjá hvað þeir finna út.

Í næstu viku á frúin að fara í seinni sónarinn. Það er boðið upp á tvær sónarskoðanir á meðgöngunni hérna. Og svo auðvitað ef það er eitthvað að. Það verður spennandi að sjá krílið aftur.

Við settum upp loftið í barnaherberginu síðustu helgi. Það þurfti að mála eina umferð yfir allt loftið, af því það var svo mislitt.  En þetta kemur nokkuð vel út. Við máluðum líka eina umferð yfir veggina. Nú vantar bara að klára að mála gluggann og leggja parketið. Við vonum að við verðum eitthvað betri í því núna en síðast, hehehe. Það er fínt að þetta skríður eitthvað áfram. Við eigum von á að vinkona frúarinnar og hennar maður komi næstu helgi og kíki á stofuna. Hann er múrari og við ætlum að reyna að plata hann til að hjálpa okkur að brjóta niður vegginn og múra upp. En við sjáum til hvað hann segir. 

Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili

kveðja

Ragga, Gummi og restin af genginu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvenær fáum við bumbumyndir?

Hildur (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 19:36

2 identicon

Kvitt kvitt. Já við íslendingarir myndum eflaust ekki alveg hafa þetta þolinmæði sem þarf þarna í danaveldi. sem betur fer höfum við heita vatnið hér til að hita upp segi ég nú bara.  kveðja úr Hafnarfirðinum

Bryndís (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 20:51

3 identicon

Gott að heyra frá ykkur aftur. Vonandi fer þetta nú allt saman að ganga betur. Sammála fyrsta ræðumanni !!!!!

Gunna (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 20:44

4 Smámynd: Bragi Einarsson

Til hamingju með "nettenginuna" og ég tek undir fyrstu athugasemd. Hvenær fáum við bumbumyndir, ha? Varðandi brenniefni, eru ekki nóg af trjám í Danmörku, er ekki orðin þörf á að grisja nokkra skóga? En samkvæmt þessu virðist sveitarvargurinn þarna hjá ykkur ekki vera yfirfullur af hjálpsemi við nýja íbúa.
Það biðja allir að heilsa héðan og svo samviskuspurning: Hvenær komist þið á Skype?

B, G, S og E.

Bragi Einarsson, 22.1.2009 kl. 08:56

5 identicon

Jiiiiii, ég trúi því ekki að þið séuð búin að vera þarna í 8 ár, það bara getur ekki verið! Mér finnst eins og þið hafið farið svona kanski í hitteðfyrra

En svo ætlaði ég bara að segja það sama og hinir - KOMA SVO með bumbumyndir

Og eitt enn, ég var sko ekki að strá hveiti hérna um allan garð - ég myndi aldrei fara svona illa með hráefni sem er hægt að búa til köku úr

Kata (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 02:13

6 identicon

Hæhæ, vildi henda inn kveðju
Elli er á sjó núna þannig hann biður að heylsa ;)

Kristín (hans Ella) (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 02:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband