25.1.2009 | 15:36
Farsímaævintýri
Kæru bloggvinir
Þá kemur færslan á réttum degi að þessu sinni. Netið hangir enn inni, og erum við mjög þakklát fyrir það. Annars ákvað frúin að hringja í internetfyrirtækið í vikunni, bara svona til að heyra hvort þetta færi að koma. Fyrir svörum varð óvenju almennileg kona, sem skildi nú bara ekkert í því að við værum ekki komin í netsamband og ætlaði að láta einhvern tæknimann kíkja á þetta. Það er bara spurning hvort það verður fyrir páska.
Við ætluðum að setja gólf á barnaherbergið um helgina, en þá kom í ljós að ofninn í herberginu lekur, svo við erum búin að semja við nágrannann, sem hefur vit á pípulögnum, að hann kíki á þetta fyrir okkur. En við kláruðum allavega að setja lista í loftið og nú er bara gólfið og ein umferð eftir á gluggana. Þau sem ætluðu að koma og kíkja á stofuna, urðu veik, svo ekkert varð úr því , en vonandi hressast þau nú fljótt. Það eru voða margir veikir þessa dagana, bæði með kvef og upp og niðurpest. Við höfum nú sloppið vel hingað til.
Frúnni þykir voða pirrandi að geta ekki gert allt sjálf og þurfa að bíða eftir að aðrir komi og hjálpi. En svona er þetta nú víst. Maður verður bara að æfa sig í að bíða. Það er sérstaklega óþægilegt þegar einhver er búinn að bjóðast til að hjálpa og maður þarf svo að reka á eftir því. En við vonum að allavega nágranninn láti sjá sig fljótlega, svo við getum klárað herbergið. Við erum líka búin að láta gera við stóra ofninn í stofunni og hann ætlar að hjálpa okkur við að setja hann upp.
Við erum farin að hallast að því að það sé einhver dýraníðingur í Tiset. Annar kötturinn kom heim um daginn, rófubrotinn. Það er nú allt gróið. Hin kom svo heim einn daginn og gat hvorki gengið né hoppað. Hún húkti bara úti í horni og var hin undarlegasta. Við sáum svo að hún var með stærðar sár á bakinu. Það er nú allt að gróa núna. En það þýðir ekkert að fara með þessar skvísur til dýralæknis, þær fríka algjörlega út ef þær þurfa að keyra eitthvað. En við vonum nú að þetta sé bara einhver óheppni. Ég trúi ekki að það sé einhver að leika sér að þessu.
Við renndum til Ribe í gær (við elskum Ribe). Það var búið að auglýsa hurðir á góðu verði. En auðvitað var bara ein eftir þegar við komum. En þeir sögðu að þeir fengju fleiri í vikunni, svo það er ekki annað að gera en að renna þangað aftur. Við renndum svo til Kollund og fengum góðar veitingar að vanda. Frúin var að láta kaupa fyrir sig nýjan gsm síma. Bóndinn var orðinn frekar þreyttur á að ná aldrei í hana. Gamli síminn er ekki nema 7 ára og hefur nú þjónað vel. En er farin að verða batteríslaus í tíma og ótíma og stundum heyrist bara ekkert í honum. Svo frúin varð að gefa eftir og endurnýja. Maður er nú pínu vanafastur og vill ekki breyta hlutunum of mikið. En það er náttúrlega ekkert sniðugt að vera með síma sem maður getur ekki treyst á að virki. Það kom sér allavega vel að hafa síma á föstudagsmorgun þegar frúin hélt til vinnu. Á miðri leið fór bíllinn að ganga mjög undarlega og keyrði mest á 60 km hraða, og bílaröðin fyrir aftan var orðin all hressileg. Enda bíll við bíl í báðar áttir á þessum tíma dags. Frúnni leist ekki á blikuna svo hún hringdi í bóndann (keyrði að sjálfsögðu fyrst út í kant!). Fékk þau skilaboð að sprauta wd40 á kertaþræðina og eftir það gekk þetta nú stórslysalaust. Já það gerast mörg ævintýri í sveitinni.
Næsta vika bíður örugglega ekki upp á færri ævintýri, en það er nú allt í lagi ef þau enda vel!
Vonum að allir heima á klakanum hafi það gott þrátt fyrir ástandið.
kveðja
Ragga, Gummi og gengið
P.s. Það verður einhver bið á bumbumyndum. Fyrir það fyrsta er bumban nú ekki orðin neitt rosalega stór og svo er frúnni líka meinilla við að það séu teknar myndir af henni, svo þið verðið bara að ímynda ykkur hvernig þetta lítur út! :)
Athugasemdir
Það er gott að hlutirnir séu að fara að gera sig aftur hjá ykkur. Til hamingju með nýja símann!
Bragi Einarsson, 26.1.2009 kl. 14:59
Bumbumyndir er ekkert til að hræðast og gaman að sjá kroppinn sinn taka svona breytingum. Ég lít bara á þetta sem sögulegan viðburð og vil gjarnan eiga myndir af þessu
Sjáumst vonandi í dag þó veður sé váleitt hahahaha..
kv.
Sigrún í Kollund
Sigrún (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 10:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.